Bíða verði eftir tillögunum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég segi bara að ég held að það gildi hið sama fyrir Seðlabankann og þingnefndina og aðra þá sem koma að þessu máli að langbest er að umræðan fari fram á grundvelli raunverulegra tillagna.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingmanni Samfylkingarinnar. Helgi spurði ráðherra hvort hann teldi að Seðlabanki Íslands væri að beita sér pólitískt á nefndarfundum Alþingis og gegn framgangi stjórnarmálefna eins og tillagna ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingar fyrir heimilin í landinu. Vísaði hann þar til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, í fjölmiðlum í vikunni.

Bjarni sagðist ekki ætla ekki að gerast þátttakandi í þeirri umræðu sem átt hefði sér stað undanfarið um það hvaða hugsanir eða meiningar lágu að baki orðaskiptum sem hann hefði ekki verið vitni að. Aðalatriði málsins væri það að unnið væri að málum tengdum skuldaleiðréttingunni í nefndum.

„Öll sú umræða sem fer fram um það sem sagt er í aðdraganda þess skiptir í sjálfu sér engu máli í samanburði við það að taka efnislega umræðu um tillögurnar þegar þær koma fram. Annað eru einhverjar getgátur sem skila engu og vangaveltur sem menn geta leikið sér með í fjölmiðlum eða í þingsal en hafa ekkert vægi á móti alvöruumræðu um vandann sem við er að etja og hvernig við tökum best á honum.“

Helgi spurði ennfremur hvort fjármálaráðherra gæti staðfest að tillögur að skuldaleiðréttingu myndu liggja fyrir fyrir mánaðarmótin og sagði Bjarni að honum hefði verið tjáð það og það hefði ítrekað komið fram. Hann vissi ekki betur en að það myndi ganga eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert