„Blóðslettur um allan bíl“

Lögreglan náði að stöðva mennina við Úthlíð í Biskupstungum.
Lögreglan náði að stöðva mennina við Úthlíð í Biskupstungum. mbl.is/Hjörtur

„Þetta var eins og í bíómynd. Ég var alblóðugur og blóðslettur um allan bíl,“ segir Brynjar Dagbjartsson sem varð fyrir fólskulegri líkamsárás í fyrrakvöld þegar maður sem brotist hafði inn í sumarbústað við Reykjaskóg í Bláskógabyggð réðist á hann.

Þetta var ekki í fyrsta skiptið sem mennirnir brutust inn í sumarbústaði, en grunur leikur á að þetta hafi verið þriðja vikan í röð sem þeir voru á ferðinni í þeim tilgangi að komast yfir verðmæti. Mennirnir voru að fara inn í þennan sama bústað í annað skipti á skömmum tíma.

Eigandi bústaðarins er með hreyfiskynjara í bústaðnum og hann lét vita um að það væri einhver kominn inn í bústaðinn. „Hann hringdi strax í bóndann á Efri-Reykjum og bað hann að kanna málið. Ég bý í sumarbústaðahverfinu og við tveir vorum búnir að tala um að ef eitthvað svona kæmi upp þá myndum við fara báðir,“ sagði Brynjar í samtali við mbl.is.

„Þegar bóndinn var á leiðinni upp eftir þá sá hann að það stóð bíll við hliðið. Við fórum því upp að hliðinu og hringdum í eiganda bústaðarins og spurðum hvort það væri ekki öruggt að það ætti ekki að vera neitt ljós í bústaðnum. Ég hringdi jafnframt í lögregluna sem sagðist koma strax.

Bóndinn ákvað að skreppa heim til að ná í lykla að botnlanga sem er við bústaðinn. Ég var því einn eftir.

Fljótlega komu tveir menn gangandi í áttina til mín. Ég renndi niður bílrúðunni og spurði hvað þeir væru að gera. Þeir sögðust vera að skoða sig um. Ég sagði, allt í lagi og spurði hvort þeir vildu ekki bíða eftir lögreglu því að það hefði verið brotist inn í bústað í hverfinu. Það skipti þá engum togum að annar mannanna reif upp hurðina hjá mér og byrjaði að kýla í mig og sparka í mig.

Það vildi svo til að lögreglubíllinn var staddur austur á Flúðum og það hitti svo á að hann hafði hringt í mig skömmu áður. Lögreglumaðurinn heyrði því hvað gekk á. Maðurinn rauk svo inn í bílinn sinn og þeir brenndu í burtu.“

Brynjari var ekið til læknis en sauma þurfti 13 spor í andlit hans. Hann er með brákuð rifbein og með mar á öðru lunganu.

Brynjar gat gefið lögreglu lýsingu á bílnum og í hvaða átt þeir fóru. Hún náði að stöðva mennina við Úthlíð.

Dómarinn tók sér frest

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert