Fjórar hæðir í stað fimm við höfnina

Fyrirhuguð byggð í Vesturbugt. Gras verður á húsþökum.
Fyrirhuguð byggð í Vesturbugt. Gras verður á húsþökum.

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti deiliskipulag fyrir Vesturbugt og Nýlendureit á fundi sínum í dag. Að auki samþykkti ráðið breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem snýst um að fallið verði frá því að leggja Mýrargötu í stokk.

Nýtt deiliskipulag fyrir Vesturbugt leggur áherslu á vistvæna byggð. Nýja byggðin mun einkennast af „vönduðum almenningsrýmum og atvinnuhúsnæði á jarðhæð sem mun skapa grundvöll fyrir iðandi mannlíf“, segir í frétt frá borginni.

Byggðin mun styðja við þá „gróskumiklu starfsemi“ sem hefur þegar fest rætur umhverfis reitinn. Reiturinn á því að verða mun meira aðlaðandi fyrir mannlíf og útivist en hann er í dag.

0,8 bílastæði verða á íbúð sem þýðir að hægt verður að selja minni íbúðir án bílastæða sem lækkar kostnað töluvert og ýtir undir fjölbreytta íbúasamsetningu. 20% íbúða skulu vera leiguíbúðir.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi átti að fjarlægja slippinn og rífa hluta verbúða við Suðurbugt. Horfið er frá því samkvæmt þessu deiliskipulagi og mun slippurinn fá að standa eins og hann er.

Skipulagið gerir ráð fyrir 195 íbúðum og tæplega 8.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði sem verður í nánum tengslum við gömlu höfnina sem verður áfram starfrækt sem stærsta fiskihöfn landsins. Rík áhersla er lögð á góðar hjóla- og göngutengingar við miðborgina og gerir kröfu um að hjólastæði séu fyrri hverja íbúð og atvinnustarfsemi á svæðinu. 

Sett er skilyrði um að mismunandi arkitektastofur komi að hönnun og útliti húsanna til þess að tryggja fjölbreytileika.

Gras á þökum húsanna

Gerð verður krafa um græn þök á byggingum sem þýðir að gras eða annar gróður verður á þökum en hann einangrar hús, bindur kolefni og minnkar þörf á upphitun auk þess sem gróður bindur vatn sem gufar í kjölfarið upp. 

Nýstárlegar lausnir í sorpmálum á svæðinu ýta undir flokkun sorps og auðvelt verður að bæta flokkunarmöguleikum við. 

Komið var til móts við athugasemdir sem bárust á auglýsingartíma deiliskipulagsins með því að lækka hús næst hafnarbakkanum úr fimm hæðum í fjórar. Þá voru hús við Hlésgötu lækkuð til að gera húsahæðir á reitnum fjölbreyttari. Þá hefur verið bætt við stíg á norðausturhluta reits 03A en fyrri deiliskipulagstillaga var gagnrýnd fyrir að húsin sem standa næst hafnarbakka mynduðu nánast einn samfelldan vegg.

Nýlendureitur smækkaður

Helsta breyting deiliskipulags Nýlendureits felst í smækkun reitsins. Ákveðið hefur verið að falla frá því að færa Mýrargötu norður fyrir Slippfélagshúsið, Mýrargötu 2-4. 

Hætt er við að lengja Bræðraborgarstíg niður að Mýrargötu, en þess í stað gert ráð fyrir göngustíg sem liggur í beinu framhaldi af Bræðraborgarstíg frá Vesturgötu yfir Nýlendugötu og niður að Mýrargötu. Leiksvæði milli Vesturgötu og Nýlendugötu verður látið halda sér, í stað þess skipta því niður í lóðir, eins og deiliskipulagið sem samþykkt var 2007 gerði ráð fyrir.

Þar sem núverandi legu Mýrargötu verður ekki breytt og vegna breytinga deiliskipulags norðan Mýrargötu, sem áður var Slippa-Ellingsenreitur, en nefnist nú Vesturbugt, er gert ráð fyrir að Seljavegur haldi núverandi stefnu sinni. Þá myndast meira rými fyrir byggingar. Lagt er til að byggja megi raðhús á horni Seljavegs og Mýrargötu, en ein lóð á reitnum verður ætluð flutningshúsi.

Byggingarreitur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar þrengdur

Nú liggur fyrir tillaga með nánari útfærslu rússneskrar rétttrúnaðarkirkju og hefur byggingarreitur kirkjunnar verið sniðinn að þeirri tillögu. Ekki er lengur gert ráð fyrir bílageymslu undir kirkjunni og lóð kirkjunnar verður opin og aðgengileg almenningi. Til að koma til móts við athugasemdir varðandi stærð rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar var byggingarreitur hennar þrengdur enn frekar, þannig að bygging á 75% grunnflatar megi ekki fara yfir 12 m (var áður 17 m), tveir litlir turnar megi fara upp í 17 m og einn stór turn í allt að 22 m.

Fallið frá stokkalausn á Mýrargötu

Hér er um að ræða breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem gerði ráð fyrir að Mýrargata yrði lögð í stokk.

Breytingin er tvíþætt. Annarsvegar er fallið frá fyrri hugmyndum um stokk og færslu Mýrargötu við Slippasvæði. Hinsvegar er gert ráð fyrir breytingum á gatnamótum Geirsgötu og Kalkofnsvegar, þannig að þau verði hornrétt. Tilgangur breytinga er að aðalskipulag Reykjavíkur endurspegli framtíðarsýn þá sem birtist í rammaskipulagi fyrir svæði Gömlu hafnarinnar, varðandi útfærslu Mýrargötu-Geirsgötu og skapa forsendur fyrir  deiliskipulagsgerð á svæðinu. Helstu ástæður þess að að falla frá stokkalausn fyrir Mýrargötu eru eftirfarandi:

  • Breyttar forsendur um aukningu byggðar vestan Mýrargötu; áform um að fella út 700 íbúða landfyllingu við Ánanaust og falla frá hugmyndum um þróun blandaðrar byggðar á landfyllingu við Örfirisey, sbr. stefnumörkun í tillögu að nýju aðalskipulagi 2010-2030.
  • Taka tillit til verndargildis gömlu verbúðanna í Suðurbugt og endurspegla þannig stefnu um borgarvernd sem kemur fram í tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík.
  • Taka tillit til þeirrar gróskumiklu starfsemi sem hefur þróast á undanförnum árum við Slippinn og Suðurbugt.
  • Breytt viðhorf til hönnunar gatna á miðborgarsvæðinu, sbr. stefnumörkun í tillögu að nýju aðalskipulagi.

Breytingartillagan, sem tekur eingöngu til þessara þátta, er í fullu samræmi við þá grundvallarstefnu sem mörkuð er í tillögu að nýju aðalskipulagi, en þar sem líklegt er að endanleg staðfesting nýs aðalskipulags verði tafsamt ferli var lagt til að gera þessa stöku breytingu nú. Tillaga að nýju aðalskipulagi 2010-2030 gerir ráð fyrir samhljóða breytingum á gatnaskipulaginu.

Hafnarfrontur. Efri mynd samkvæmt auglýstu skipulagi og neðri mynd samkvæmt …
Hafnarfrontur. Efri mynd samkvæmt auglýstu skipulagi og neðri mynd samkvæmt breyttu skipulagi..
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert