Gleðiefni að taka húsið í notkun

„Þetta er náttúrlega bara mikið gleðiefni að taka þetta fína hús í notkun,“ segir Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá Landsspítalanum, í samtali við mbl.is en í dag var ný hjúkrunardeild tekin í notkun á Vífilsstöðum í Garðabæ. Fyrst í stað verður flutt 18 rúma hjúkrunardeild af Landakoti á Vífilsstaði en á næstu vikum verður opnað rými fyrir allt að 42 manns sem lokið hafa meðferð á Landspítalanum og bíða eftir varanlegri vistun á hjúkrunarheimili. Fyrst í stað verður opnuð starfsemi á 2. hæð hússins, næsti áfangi verður 3. hæðin og loks sú fyrsta.

Húsnæðið á Vífilsstöðum hefur staðið autt frá því í apríl 2013 þegar hjúkrunarheimilið Holtsbúð flutti starfsemi sína þaðan í nýtt húsnæði í Garðabæ en samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 27. september síðastliðinn tillaga Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, um að opna hjúkrunarheimili á ný á Vífilsstöðum. Gert er ráð fyrir að Alþingi veiti 136 milljóna króna aukafjárveitingu til öldrunarþjónustu í því skyni. Unnið hefur verið að því að undanförnu að gera húsið klárt undir starfsemi á ný og hefur það gengið vel að sögn Hildar.

Rekstur hjúkrunardeildar á Vífilsstöðum er þó hugsaður sem tímabundin lausn. Endurskoða á rekstur deildarinnar eftir sex mánuði og kanna möguleika á öðru rekstrarformi eða öðrum rekstraraðilum samkvæmt aðgerðaráætlun til að mæta þörf einstaklinga sem bíða á Landspítala eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili. Ekki liggur fyrir hvað taki við að þessum sex mánuðum liðnum en meðal annars hefur verið í skoðun að bjóða reksturinn út eða láta aðra stofnun taka hann yfir eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á dögunum.

Vífilsstaðaspítali var upphaflega tekinn í notkun 1910. Spítalinn var lengi vel hugaður fyrir berklasjúklinga en þegar sigur vannst á þeim var byrjað að taka á móti öndunarfærasjúklingum þar. Síðast var öldrunarheimili á Vífilsstöðum áður en Hrafnista hóf rekstur hjúkrunarheimilis í húsnæðinu árið 2004. Því var hins vegar lokað 2010 og stóð húsnæðið í kjölfarið autt þar til hjúkrunarheimilið Holtsbúð hóf þar tímabundna starfsemi sem aftur lauk í apríl á þessu ári sem áður segir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert