Hluti farþega úr rútu sem fór á hliðina á Þingvallavegi í gær vildi ljúka ferðinni að Gullfossi og Geysi.
Veður og aðstæður voru hins vegar þannig að það þótti ekki ráðlegt og fóru flestir heim á hótel í Reykjavík. Tveir farþegar urðu fyrir meiðslum sem talin voru minniháttar.
Hópferðabifreið frá Kynnisferðum var með 45 erlenda ferðamenn ásamt bílstjóra og leiðsögumanni í hefðbundinni skoðunarferð um Þingvelli og að Gullfossi og Geysi. Mikil hálka var á Þingvallavegi við Hakið og rok og tók svo mikið í að rútan rann út af veginum og valt. Margir farþegar voru í bílbeltum og telur lögreglan að það hafi átt þátt í að ekki slösuðust fleiri.