Kvöldfundur samþykktur á Alþingi

mbl.is/Ómar

Gert er ráð fyrir að þingfundur standi fram á kvöld en heimild til þess var samþykkt á Alþingi í dag. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði þingmenn flokksins ekki leggjast gegn því. Hann gagnrýndi engu að síður að grípa þyrfti til slíks ráðs til þess að koma einhverjum málum í farveg fyrir komandi nefndadaga.

„Hér hafa verið þingdagar þar sem hefur orðið að hætta á hádegi vegna þess að það hafa ekki legið nein mál fyrir frá ríkisstjórninni. Kannski sem betur fer. Þau mál sem eru á dagskránni í dag eru nú mörg endurflutt mál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og sjálfsagt að taka þeim vel hér í þinginu eins og þeim málum sem að koma frá Evrópusambandinu og hér hafa kannski verið hvað mest áberandi,“ sagði Helgi. Hvatti hann forseta Alþingis til þess að leggja áherslu á það við ríkisstjórnina að leggja fram þingmál.

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, kvað sér hljóðs og sagðist vilja þakka þann mikla samstarfsvilja sem komið hefði fram í orðum Helga. Ennfremur að hún vonaði að það yrði til þess að mál kæmust fyrr á dagskrá og í framhaldinu til nefndar.

Stjórnarandstæðingar hafa undanfarna tvo daga rætt frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, um brottfall laga um náttúruvernd í nokkra klukkutíma og hafa fyrir vikið ýmis önnur mál sem verið hafa á dagskrá þingsins ekki verið rædd. Umræða um frumvarpið verður framhaldið í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert