Gert er ráð fyrir að fyrsta umræða um frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfisráðherra, um brottfall laga um náttúruvernd haldi áfram í dag á Alþingi samkvæmt dagskrá þingsins. Þetta verður þá þriðji dagurinn í röð sem fyrsta umræða um frumvarpið fer fram en þingfundur hefst klukkan 15:00.
Umræðan hófst á mánudaginn um klukkan 16:00 þegar Sigurður Ingi mælti fyrir frumvarpinu um brottfall laganna og stóð til klukkan 19:50 þegar fundi var slitið. Gert hafði verið ráð fyrir að ýmis önnur mál yrðu tekin fyrir samkvæmt dagskrá en ekki varð af því vegna umræðunnar um frumvarpið. Fyrir utan ráðherrann tóku tveir stjórnarþingmenn til máls í umræðunni, þeir Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins, og Hjálmar Bogi Hafliðason varaþingmaður sama flokks. Á hinn bóginn tóku 11 þingmenn stjórnarandstöðunnar þátt í umræðunni og einkenndust umræðurnar einkum af samræðum þeirra.
Hliðstætt form var á umræðunni um frumvarpið á Alþingi í gær. Þá hófst hún klukkan 15:43 og lauk klukkan rúmlega 19:00. Tveir stjórnarþingmenn tóku til máls, þeir Höskuldur og Hjálmar, og níu stjórnarandstöðuþingmenn. Mál sem til stóð að ræða síðar um daginn voru að sama skapi ekki rædd.
Stefnt að málþófi eða ekki?
Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hafa einkum verið áberandi í umræðunni um frumvarp umhverfisráðherra en við upphaf hennar á mánudaginn sagðist Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, reikna með miklum umræðum um málið á Alþingi sem kæmi ekki að sök þar sem lögin sem fella ætti brott ættu ekki að taka gildi fyrr en í apríl á næsta ári.
Höskuldur velti því þá upp hvort til stæði að viðhafa málþóf vegna málsins og svaraði Katrín því þá þannig að hún teldi málið einfaldlega eiga skilið ítarlega umræðu eins og í aðdraganda þess að lögin voru samþykkt á síðasta kjörtímabili.
Sigurður Ingi ákvað í sumar að lög um náttúruvernd sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykkt fyrir þingkosningarnar í vor skyldi falla brott og eldri lög halda sér. Sagðist hann vilja ná meiri sátt um málið og taka meira tillit til gagnrýni á það en gert hefði verið. Sú ákvörðun féll í grýttan farveg hjá stjórnarandstæðingum.