Loka fjölmiðladeildinni í Flensborg

Flensborgarskóli í Hafnarfirði.
Flensborgarskóli í Hafnarfirði. mbl.is/G.Rúnar

Fjölmiðladeildinni í Flensborg verður lokað um næstu áramót og vegna þessa verður fjórum starfsmönnum sagt upp um mánaðamótin. Þá liggur fyrir að ákvörðun um að kennsla í matreiðslu verði lögð niður með næsta vori. Starfsfólki, nemendum og foreldrum hefur verið tilkynnt um þessa ákvörðun. Þetta kemur fram á hafnfirska fréttavefnum h220.is.

Þar er haft eftir Magnúsi Þorkelssyni, skólameistara Flensborgarskólans, að fjárveitingar til skólans feli í sér áframhaldandi hallarekstur sem nauðsynlegt sé að stöðva.

„Við erum með halla uppá 2-3 milljónir á mánuði og það er forgangsatriði að stöðva áframhaldandi  uppsöfnun skulda. Skrefið sem svo tekur við er að vinna á halla þessa árs sem er um 30 milljónir og síðan er skólinn með hala uppá 60 milljónir í tengslum við rekstur liðinna ára,” segir Magnús í samtali við h220.is.

Hann segir ennfremur að hann hafi hafi vitað að til róttækra aðgerða þyrfti að grípa er hann tók við starfi skólameistara í vor, en uppsagnir hafi verið það síðasta sem hann hefði kosið. Ákvörðun þessi byggist ekki síst á því að hóparnir í fjölmiðladeildinni séu fámennir og slík kennsla sé dýr miðað við kenndar einingar sem liggja að baki nemendum  í náminu.

Aðspurður um þá nemendur sem nú  stunda nám á fjölmiðlabrautinni segir Magnús að þeir sem séu komnir lengst í náminu geti væntanlega lokið stúdentsprófi frá skólanum. Þeir sem eru komnir styttra á veg verður bent á fjölmiðladeildir Borgarholtsskóla og Tækniskólans og skólinn muni reyna að aðstoða nemendur við þessi vistaskipti.

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert