Verslunargleði Íslendinga fyrir jólin virðist nú dreifast á fleiri erlendar borgir en áður, bæði í Ameríku og á Bretlandseyjum. Tollverðir finna ekki fyrir fleiri ferðum í rauða hliðið með tollskyldan varning. Kannski vegna þess að tollamörkin voru hækkuð en fleiri versla líka gegnum netið frá Kína.
„Það er þó nokkur umferð í rauða hliðið, en mér finnst samt eins og þetta sé minna en oft áður,“ segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður hjá Tollstjóraembættinu.
Ferðamenn sem búsettir eru á Íslandi mega hafa með sér tollfrjálsar vörur að verðmæti samtals 88 þúsund krónur, hvort sem um er að ræða einn eða fleiri hluti. Þessi heimild var hækkuð þann 1. mars 2013, en hún var áður 63 þúsund krónur.
Kári segir þetta án efa skýra að hluta hvers vegna jafnvel hafi dregið úr því að ferðamenn eigi erindi í rauða hliðið. „En svo pantar fólk náttúrulega bara í gegnum AliExpress,“ segir Kári hlæjandi og vísar þar í kínversku vefverslunina sem Íslendingar virðast í stórauknum mæli eiga viðskipti við.
„Við höfum alveg rekið okkur á að það er margföld afgreiðsla á póstsendingum þaðan,“ segir Kári. Aðspurður segir hann mest um að fólk panti fatnað og fylgihluti frá Kína en þó séu líka dæmi um að raftæki eins og snjallsímar og spjaldtölvur séu keypt þannig til landsins.
Þúsundir jólagjafi berast vanalega til landsins með pósti á þessum tíma árs. Í fyrra voru bögglasendingar af því tagi um 21 þúsund talsins. Ekki þarf að greiða aðflutningsgjöld af jólagjöfum sem sendar eru til landsins ef verðmæti hverrar gjafar er ekki meira en 13.500 krónur.
Þrátt fyrir netverslunin má búast við að aukinn þungi færist í verslunarferðir þegar nær dregur jólum. Í næstu viku er t.d. „Black Friday“, stærsti útsöludagur ársins í Bandaríkjunum föstudaginn eftir þakkargjörð. Margir Íslendingar flykkjast vestur yfir haf þessa helgi en aðspurður segir Kári þó ekki þurfa að gera sérstakar ráðstafanir í tollinum vegna þess.
Á haustin verður yfirleitt alltaf aukning í helgarferðum til Bandaríkjanna en Kári segir tollverði merkja það að verslun virðist orðin hagstæðari í Evrópu, einkum Bretlandseyjum.
Undir þetta tekur Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Þetta er að dreifast víðar en verið hefur. Glasgow hefur verið að sækja í sig verðir hvað varðar verslunarferðir og svo sjáum við líka að Brighton virðist vinsæl. Fólk flýgur þá til Gatwick og þaðan er stutt að fara til Brighton.“
Norður-Ameríka hefur enn aðdráttarafl en Guðjón segir að þar séu verslunarferðir sömuleiðis farnar til fleiri borga en áður. „Það er ekki bara Boston, nú er til dæmis að verða vinsælt að far til Washington, þar sem eru stórar verslunarmiðstöðvar rétt hjá flugvellinum, og jafnvel Toronto líka.“
Þótt fæstir fari utan í þeim tilgangi einum að versla koma margir klyfjaðir heim. Kári segir að almennt séu ferðamenn til fyrirmyndar og reyni ekki að fara í felur með tollskyldan varning. „Það eru nokkrir tugir á dag sem fara í rauða hliðið og borga sín gjöld samviskusamlega. Fólk virðist meðvitað um að gera það til að lenda ekki í að þurfa að greiða sektir.“