Aðstoðarmennirnir orðnir sextán

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjöldi aðstoðarmanna ráðherra er nú orðinn 16 eftir að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, réð Benedikt Gíslason sem annan aðstoðarmann sinn við hlið Svanhildar Hólm Valsdóttur.

Sex ráðherrar hafa nú tvo aðstoðarmenn sem er sá fjöldi sem leyfilegur er án sérstaks samþykkis í ríkisstjórn. Það eru auk Bjarna þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Raunar er það svo að Sigurður Ingi gegnir tveimur ráðherraembættum þar sem hann er að auki umhverfisráðherra og í því ráðuneyti hefur hann einn aðstoðarmann.

Þrír ráðherra, fyrir utan Sigurð Inga í stóli umhverfisráðherra, hafa hins vegar einn aðstoðarmann. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Þess má hins vegar geta að annar aðstoðarmanna Sigmundar Davíðs er Ásmundur Einar Daðason alþingismaður. Hann þiggur ekki sérstök laun sem aðstoðarmaður og ráðning hans er tímabundin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert