Hætta er á japönsku ástandi í efnahagslífi á Íslandi sem einkennist litlum hagvexti, lítilli fjárfestingu og ofskuldsetningu í atvinnulífi. Svarið við þessari stöðu ætti að vera að opna hagkerfið og auka samkeppni. Þetta sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á opnum fundi Samfylkingarinnar í kvöld.
Í ræðunni fjallaði Árni Páll um kosningaúrslitin í vor. „Við töpuðum meira fylgi en nokkur annar stjórnarflokkur í vestrænni stjórnmálasögu. Það var erfið og sár upplifun og ekkert sjálfgefið að Samfylkingin myndi lifa það mikla högg. En við höfum gert það og hafið uppbyggingu á ný.
Ég orðaði það svo fyrir kosningar að ég vildi frekar bíða ósigur en vinna á forsendum loforða sem ég teldi enga leið að uppfylla og myndu valda þjóðinni skaða. Á undanförnum mánuðum hef ég engan hitt sem hefur óskað þess að við hefðum lofað meiru. Ég hef hins vegar hitt mikinn fjölda sem hrósar okkur fyrir staðfestuna - að hafa sagt það sem var satt og staðið með því sem rétt var. Við tókum ábyrga afstöðu þótt það kostaði okkur fylgi og marga góða félaga okkar þingsæti. Í þessu felst grundvöllur að nýju samtali okkar við þjóðina,“ sagði Árni Páll.
Árni Páll sagði að við lifum núna sérkennilega tíma, tíma langvinns umróts í eftirmála hruns. Við slíkar aðstæður væri hægt að efla samstöðu eða næra ótta og óöryggi með því að draga víglínur og bjóða skjól gegn hættum sem leyndust handan línunnar. Ríkisstjórnarflokkarnir hefðu tekið síðari kostinn.
„Hættan á japönsku ástandi efnahagslegrar lömunar blasir við, nú þegar spáð er litlum hagvexti, lítilli fjárfestingu og ofskuldsetningu í atvinnulífi. Þá ætti svarið að vera að opna hagkerfið og auka samkeppni. Við ættum líka að leggja allt kapp á nýjan gjaldmiðil sem greiðir fyrir aukinni fjárfestingu. En kreddukarlarnir kjósa frekar að loka leiðinni út og hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Við ættum líka að leggja allt kapp á atvinnuþróunarverkefni vítt og breitt um land og auka fé til rannsókna og uppbyggingar á þekkingu. Nei, kreddukarlarnir skera þau öll niður, skera við trog fjármagn í rannsóknarsjóði og tækniþróunarsjóð, afnema alveg uppbyggingarverkefni í starfsnámi og draga úr framlögum til framhaldsskóla og háskóla.
Við ættum að auka arð okkar af auðlindum til lands og sjávar. Nei, kreddukarlarnir lækka veiðigjaldið, gefa makrílkvótann og eiga þá einu uppbyggingarhugmynd að gefa orku til stóriðju,“ sagði Árni Páll.
Hann sagði að við þyrftum að takast á við óttann og sundrungaröflin, með þá sannfæringu að leiðarljósi að með samvinnu landbyggðar og höfuðborgar, Íslands og umheimsins, karla og kvenna, menningar, lista og grunnframleiðslugreina verði varanleg verðmæti og mikilvæg lífsgæði til. Átök kölluðu á óstöðugleika, samvinnan tryggði vinnufrið um mikilvægasta verkefni stjórnmálanna frá lýðveldisstofnun.
„Þeir stilla áhugafólki um bætt viðskiptakjör og aukin alþjóðasamskipti upp sem hatursfólki alls þess sem íslenskt er. Ef menn ætla að vera góðir Íslendingar þurfa þeir helst að hatast út allt sem útlent er og sérstaklega evrópskt.
Allt í einu á að vera óhugsandi að hafa í senn metnað fyrir Íslands hönd og vilja opna markaði og fullan atkvæðisrétt Íslands í samskiptum við aðrar þjóðir. Um áratugi hafa stjórnmálamenn okkar, rithöfundar, hugsuðir og sérfræðingar skrifað og rætt um mikilvægi þess að vera jafnt heimsmenn og heimamenn – vera íslensk og alþjóðleg í senn. Ég nefni bara úr mjög ólíkum áttum fólk eins og Gylfa Þ. Gíslason, Vigdísi Finnbogadóttur, Pétur Gunnarsson og Jóhannes Nordal.
Nú á það ekki að vera lengur hægt. Nú á heimóttarskapurinn einn að ríkja. Þeir stilla menningu upp sem lúxusverkefni sem einungis sé réttlætanlegt að verja fé til ef uppfyllt hafi verið hver einasta önnur þörf fyrir fé.
Hús íslenskra fræða er breytt í gröf íslenskra fræða á 350 ára afmæli Árna Magnússonar,“ sagði Árni Páll.