Kjaraviðræður í auglýsingatíma

Ríkissáttasemjari
Ríkissáttasemjari mbl.is/Golli

Samninganefnd Starfsgreinasambandsins gagnrýnir að viðræður vegna kjarasamninga rati inn í auglýsingatíma en í gærkvöldi birtu Samtök atvinnulífsins auglýsingu þar sem varað er við launahækkunum umfram 2%. Samninganefndin situr nú á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara. Áður hafa ASÍ og VR gagnrýnt auglýsingu SA.

„Viðræður vegna kjarasamninga hafa nú ratað inn í auglýsingatíma sjónvarpsins með auglýsingu sem SA birti í gærkveldi. Þar er varað við hækkun launa umfram 2%. Flestir leggjast nú á eitt að koma í veg fyrir að launafólk fái launahækkanir í kjarasamningum sem eru lausir í lok mánaðarins en það er fáheyrt að samtök atvinnurekenda fari frekar í auglýsingaherferðir en að tala við samningsaðila við samningaborðið.

Starfsgreinasamband Íslands lagði fram kröfur sínar um síðustu mánaðarmót og þeim var hafnað samstundis. Ítrekaðar tilraunir hafa verið gerðar til að setjast við samningaborðið með Samtökum atvinnulífsins en fátt hefur verið um svör.
Lægstu taxtar á vinnumarkaði eru 191.752 krónur. Ef launamaður hefur unnið í fjóra mánuði hjá sama atvinnurekenda má ekki greiða honum lægra en 204.000 krónur í mánaðarlaun. 2% hækkun á þessi laun þýðir hækkun um 4.000 krónur. Þetta eru tillögur Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans. Samtök atvinnulífsins hafa ekki verið til viðræðu um frekari hækkanir en Starfsgreinasambandið lagði fram kröfu um 20.000 króna hækkun á taxta og þykir mörgum hógvært.

Það er gömul saga og ný að í aðdraganda kjarasamninga keppist greiningadeildir, stjórnvöld og samtök atvinnurekenda við heimsendaspár verði samið um verulegur launahækkanir. Starfsgreinasambandið hefur sagt að vissulega sé launafólk alltaf til í að axla ábyrgð en við gerum það ekki ein.

Stjórnvöld hafa lagt fram skattatillögur sem koma millitekjuhópum til góða en lægst launaða fólkið á vinnumarkaði fær engar skattalækkanir. Verð á vörum og þjónustu fer stighækkandi og stjórnvöld leggja á nýjar álögur á almenning í stað þess að leggja skatta á þá sem eru aflögufærir. Þegar kemur svo að kjarasamningum á lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum að „axla ábyrgð“. Hafa ber í huga að þeir hópar sem Starfsgreinasambandið semur fyrir verða síst varir við launaskrið, það er í þeim hópum sem betur standa. Venjulegt verkafólk er oftar en ekki á töxtum og þarf að hífa upp launin með vöktum og yfirvinnu. Í þessu samhengi verður auglýsingaherferð Samtaka atvinnulífsins um að launafólk eigi að axla ábyrgð í besta falli hrokafull og ekki til þess fallin að liðka fyrir samningum.

Það vekur sérstaka athygli að í málflutningi Samtaka atvinnulífsins er ekki vikið orði að ábyrgð atvinnurekenda eða stjórnvalda á að halda verðbólgunni í skefjum. Fyrirtæki innan SA bera ekki síst ábyrgð á því mikla launaskriði sem hefur orðið á vinnumarkaði hjá öðrum en almennu launafólki. Samninganefnd SGS fordæmir að SA skuli varpa allri ábyrgð yfir á launafólk. Starfsgreinasambandið mun aldrei gangast undir slíkan málflutning!,“ segir í yfirlýsingu samninganefndar Starfsgreinasambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert