Krefjast rannsóknar á leka

Mótmæli til stuðnings Tony Omos fyrir framan innanríkisráðuneytið í hádeginu …
Mótmæli til stuðnings Tony Omos fyrir framan innanríkisráðuneytið í hádeginu í gær. Rax / Ragnar Axelsson

Samtökin No Borders fordæma að upplýsingar um hælisleitandann Tony Omos hafi lekið í fjölmiðla og krefjast þess að lekinn verði rannsakaður. Þau segja að málið varpi ljósi á alvarlegan misbrest innan íslenska stjórnkerfisins. Annað er ekki vitað en að Omos sem neitað hefur verið um hæli sé ófundinn, en hann fór í felur eftir að niðurstaða innanríkisráðuneytis lá fyrir.

Greint var frá því á mbl.is í gær að margt væri óljóst í máli Omos. Hann hafi við komuna til landsins í október 2011 sagst vera á leið til unnustu sinnar í Kanada og kvaðst engin tengsl hafa við landið. Í viðtali hjá Útlendingastofnun í apríl 2012 bar á sömu lund, að hann hefði engin sérstök tengsl við landið og að hann hafi verið á leið til Kanada þar sem unnusta hans, sem einnig er frá Nígeríu, sé búsett. Vísaði mbl.is í óformlegt minnisblað úr innanríkisráðuneytinu sem heimild um þessi atriði.

Þar kemur einnig fram að í greinargerð sem ráðuneytinu barst í júlímánuði 2012 hafi enn á ný verið ítrekað að Omos ætti unnustu í Kanada. Þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að Omos hefði engin sérstök tengsl við Ísland var svo ekki mótmælt.

Í október síðastliðnum staðfesti innanríkisráðuneytið niðurstöðu Útlendingastofnunnar um að taka ekki til efnismeðferðar beiðni Omos um hæli og endursenda hann til Sviss ásamt hælisbeiðninni. Innanríkisráðuneytið hafnaði svo fyrir síðustu helgi beiðni Omos um að fresta réttaráhrifum niðurstöðunnar þannig að hann geti borið hana undir dómstóla.

Ráðherra segi af sér

„No Borders Iceland krefjast þess að innanríkisráðuneytið rannsaki hvernig á því stendur að skjal með viðkvæmum persónuupplýsingum barst frá ráðuneytinu til fjölmiðla í gær. Leki á persónuupplýsingum innan úr stjórnkerfinu er alvarlegur trúnaðarbrestur við almenning og stefnir friðhelgi einkalífs í hættu,“ segir í tilkynningu frá samtökunum. 

Samtökin segja að í ljósi alvarleika málsins sé um gjörsamlega ólíðandi vinnubrögð að ræða. „Beri starfsmaður ráðuneytisins ábyrgð á lekanum er um að ræða brot á þagnarskyldu opinberra starfsmanna en slíkt brot getur varðað fangelsi allt að þremur árum. Komi ekki í ljós hvernig stendur á því að persónuupplýsingum sé lekið úr ráðuneytinu ber ráðherra ábyrgð á gjörðum undirmanna sinna og ætti með réttu að segja af sér.“

Frétt mbl.is: Fáir mótmæltu brottvísun Omos

Frétt mbl.is: Margt óljós í máli hælisleitanda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert