Hafnarfjarðarbrandara þarf ekki að kynna fyrir nokkrum Íslendingi. Þeir ganga að öllu jöfnu út á að láta Hafnfirðinga líta út sem einstaklega vitlausa og einfalda.
Það er t.d. gert með því að saka þá um að læðast framhjá apótekinu til að vekja ekki svefntöflurnar, eða með því að halda því fram að Hafnfirðingur hafi hringt í lögguna og beðið um að koma í snatri, því búið væri að stela stýrinu, bensíngjöfinni, kúplingunni, gírkassanum og bremsunni. Nokkru síðar hringdi hann aftur og sagði að allt væri í lagi. Hann hafði sest aftur í.
Nemendur í Iðnskólanum í Hafnarfirði voru með Hafnarfjarðarbrandarana á reiðum höndum þegar útsendarar mbl.is báðu þá um að segja sér brandara. Skólameistari skólans, Ársæll Guðmundsson, kunni aftur á móti engan Hafnarfjarðarbrandara, en sagði að þegar hann var nýfluttur til bæjarins hefði hann séð fólk ganga um með sófa. Þar sem úti var rigning dró hann þá ályktun að það væri til siðs í Hafnarfirði að nota sófa í stað regnhlífar til að skýla sér fyrir regni.