„Þingmenn Framsóknar hafa beitt sér fyrir því af fullu afli að þetta nái ekki fram að ganga. Því miður eru einu svörin sem við fáum að þessi sameining sé ætlun og vilji ríkisvaldsins og því ekki möguleiki á að ræða t.d. hvort sveitafélag taki rekstur yfir, fyrr en eftir sameiningu.“
Þetta segir Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hún gagnrýnir Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, harðlega vegna áforma um að sameina Heilbrigðisstofnunina á Patreksfirði og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og að hafa ekki viljað ræða stefnubreytingu í þeim efnum þrátt fyrir mótmæli sveitarstjórnarmanna á svæðinu. Segist hún hafa fengið mörg símtöl og tölvupósta undanfarna daga vegna málsins. Kveðið er á sameiningu heilbrigðisstofnana í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.
„Við Framsóknarþingmenn í Norðvesturkjördæmi höldum áfram að styðja heimamenn af heilum hug og vinna gegn þessari aðgerð,“ segir Jóhanna ennfremur og bætir við: „Ég styð að sjálfsögðu heimamenn í þessari baráttu, mun beita mér áfram fyrir þessu og bið ykkur um að vinna með mér og okkur þingmönnum við að sýna það statt og stöðugt að við sættum okkur engan vegin og alls ekki við þessa ákvörðun, enda skerðir hún öryggi íbúa, eykur útgjöld heimila til muna og ég stend ekki með þeirri framkvæmd,“ segir hún að lokum.