Samtök atvinnulífsins undrast hörð viðbrögð Alþýðusambands Íslands við auglýsingu SA og þeim staðreyndum sem þar eru settar fram. Samtökin segja, að laun á Íslandi hafi hækkað þrefalt meira en í viðskiptalöndum Íslands á síðustu sjö árum á sama tíma, það hafi valdið verðbólgu og kaupmáttur hafi rýrnað.
„Myndin sem blasir við ef horft er allt aftur til ársins 1990 er sú sama. Hækkun nafnlauna á Íslandi hefur verið tvöfalt meiri en á Norðurlöndunum frá þeim tíma, verðbólga verið langt umfram það sem þar þekkist og kaupmáttarþróun lakari,“ segir í yfirlýsingu frá SA.
Bent er á, að að baki þeirri mynd sem hér sé dregin upp búi fjölmargar ástæður. Launaskrið hafi verið allt of mikið og grafið undan forsendum þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið; áherslur í fjármálum hins opinbera hafi oftar en ekki kynt verðbólgubálið með umfangsmiklum skattalækkunum og stórauknum útgjöldum á tímum þenslu.
„Þessi þróun hefur síðan valdið miklu ójafnvægi í efnahagslífinu sem birst hefur í viðvarandi viðskiptahalla og að lokum gengislækkunum með reglulegu millibili. Þessi atburðarás hefur verið endurtekin á 7 til 10 ára fresti um áratuga skeið,“ segir í tilkynningunni.