MR-ingar krefjast leiðréttingar á fjárlögum

Nemendur við MR segja að nú sé komið að þeim …
Nemendur við MR segja að nú sé komið að þeim stað að ekki sé hægt að skera niður eða hagræða meira án þess að það bitni verulega á námsframboði og kennslu í skólanum. mbl.is/Styrmir Kári

Nemendafélög Menntaskólans í Reykjavík hafa sent fulltrúum fjárlaga- og menntamálanefndar Alþingis opið bréf þar sem þau geta athugasemdir við framlag til skólans á fjárlögum næsta árs. Þau undrast að MR skuli fá minnsta fjárframlag allra framhaldsskóla á Íslandi og krefjast leiðréttingar.

Stjórnir Framtíðarinnar og Skólafélagsins, nemendafélags MR senda bréfið. Nemendafélögin stóðu auk þess fyrir undirskriftasöfnun í dag og á mánudag hyggjast MR-ingar að ganga frá skólanum að skrifstofum menntamálaráðuneytisins kl. 11.45, en þar ætla þeir að afhenda fulltrúa ráðuneytisins undirskriftirnar.

Bréfið sem nemendurnir sendu þingnefndunum er svohljóðandi: 

„Eftir að hafa skoðað tillögur til fjárlaga 2014 erum við vægast sagt undrandi. Þar kemur fram að Menntaskólinn í Reykjavík fær, enn og aftur, minnsta fjárframlag allra framhaldsskóla á Íslandi. Undanfarin ár hefur mikið verið skorið niður í framhaldsskólakerfinu rétt eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Þetta hefur óneitanlega bitnað mikið á starfi og aðstöðu Menntaskólans í Reykjavík. Fram að þessu hafa skólastjórnendur leitað allra leiða til að hagræða og skera niður til að mæta niðurskurðarkröfum stjórnvalda. Þeir hafa unnið þrekvirki í sínu starfi og rekstur skólans hefur aldrei farið fram úr fjárhagsáætlun. Nú er hins vegar komið að þeim stað að ekki er hægt að skera niður eða hagræða meira án þess að það bitni verulega á námsframboði og kennslu í skólanum.

Menntaskólinn í Reykjavík hefur sérstöðu þegar kemur að námsframboði en sem dæmi má nefna að hann er eini skólinn sem býður upp á nám við fornmáladeild. Skólinn gegnir því lykilhlutverki í að tryggja fjölbreytileika náms á Íslandi. Kannanir hafa enn fremur sýnt fram á að nemendur sem útskrifast úr Menntaskólanum í Reykjavík standa sig mjög vel þegar í háskóla er komið.

Að auki er skólinn sá elsti sinnar tegundar á landinu en hann á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1056. Í ljósi alls þessa er það í meira lagi furðulegt að skólinn skuli fá minnstu framlögin. Þegar við horfum til sambærilegra skóla, þ.e. skóla af svipaðri stærð og gerð, kemur í ljós að þeir þiggja allir hærri framlög en Menntaskólinn í Reykjavík. Þar munar tugum þúsunda á hvern ársnemanda.

Ef við skoðum alla skóla á landinu kemur fram að framlög á hvern ársnemanda til Menntaskólans í Reykjavík eru um 26% undir meðalframlagi. Það er því skýr krafa okkar að við, sem nemendur í MR, verðum metin til jafns við nemendur sambærilegra framhaldsskóla. Við krefjumst þess að munurinn sem fram kemur á tillögum til fjárlaga ársins 2014 verði leiðréttur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert