Sló leigubílstjóra í andlit með bjórflösku

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi karlmann í sjö mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að slá leigubifreiðastjóra í andlit með bjórflösku. Maðurinn var einnig sakfelldur fyrir fjársvik en sýknaður vegna eignarspjalla.

Ríkissaksóknari ákærði manninn í júlí sl. fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, fjársvik og eignaspjöll. Atvikið átti sér stað aðfaranótt mánudagsins 19. desember 2011. Fram kemur í ákærunni að hann hafi blekkt leigubifreiðastjóra til að aka sér með leigubifreið frá miðborg Reykjavíkur að húsi í Hafnarfirði. Er þangað var komið steig maðurinn út úr bifreiðinni án þess að greiða fyrir aksturinn og er leigubílstjórinn skrúfaði niður hliðarrúðuna þar eð hann taldi manninn ætla að reiða fram greiðslu, sló maðurinn bílstjórann í andlitið með glerflösku og slóst flaskan einnig í framrúðu bifreiðarinnar. Afleiðingar þessa urðu þær að leigubílstjórinn hlaut 3 sm langan skurð framan á nefið og og sprunga kom á framrúðu bifreiðarinnar, að því er fram kemur í ákærunni.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að brot mannsins hafi verið framtið 19. desember 2011 og ekki sé annað að sjá af gögnum málsins en að rannsókn málsins hafi verið lokið í janúar 2012. Ákæra hafi hins vegar ekki verið gefin út fyrr en í júlí 2013 og verði ekki séð að sá dráttur sé ákærða um að kenna. Af þessum sökum þótti rétt að skilorðsbinda sex mánuði refsingarinnar.

Þá er manninum gert að greiða 90% af heildarsakarkostnaði, sem er samtals 470.300 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns.

Þá skal maðurinn greiða leigubílstjóranum 305.000 krónur í skaða- og miskabætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert