Hafnarfjarðarbær mun á næsta ári taka á móti hópi flóttafólks, allt að sjö einstaklingum, en þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1999 sem sveitarfélagið tekur á móti flóttamönnum.
„Þetta er sérstök beiðni frá velferðarráðuneytinu um að við tökum á móti sjö svokölluðum kvótaflóttamönnum á næsta ári,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við Morgunblaðið.
„Ríkið mun greiða allan kostnað í tvö ár vegna húsnæðis og allrar þeirrar aðstoðar sem fólk þarf á að halda til að geta komið undir sig fótunum,“ segir Guðrún Ágústa. „Það er mælst til þess að það sé ekki félagslegt húsnæði heldur húsnæði á almennum markaði.“ Í erindi velferðarráðuneytisins til Hafnarfjarðar segir að um afganska flóttamenn sé að ræða.