Tinna borgar lífgjöfina

Tinna og hrútlambið í fjárhúsinu á Krossnesi.
Tinna og hrútlambið í fjárhúsinu á Krossnesi. Ljósmynd/Jón Guðbjörn Guðjónsson

Þegar fé var rekið heim og tekið á hús í dag á bænum Krossnesi á Ströndum kom um mánaðar gamalt lamb heim með fénu. Óvenjulegt er að ær séu að bera á haustin, en það er þó alls ekki einsdæmi.

Móðirin er svört á sem heitir Tinna. Henni var sleppt út í vor um leið og hrútunum, enda var hún geld. Hrútum og lamblausum ám er oftast hleypt snemma út til að skapa pláss vegna sauðburðarins. Tinna komst því fljótt í hrút og kemur nú heim með þetta væna hrútlamb.

Tinna hefur verið gjöful ær gegnum árin, en hún er nú á tíunda vetri. Úlfar Eyjólfsson  bóndi á Krossnesi segist ekkert hafa tekið eftir því að Tinna væri sverari um sig en aðrar ær um sláturtíð, en ákveðið hafi verið að gefa henni líf þrátt fyrir að vera geld og vera orðin níu vetra, vegna þess hvað hún hefur verið frjósöm alla tíð. „Hún hefur verið þrílembd og tvílembd alla sína tíð. Þessi ær hefur alltaf verið svolítið sérstök,“ segir Úlfar.

Þetta lamb undan Tinnu á Krossnesi má kalla vetrarlamb eða jafnvel jólalamb.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert