Samtök atvinnulífsins saka Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðshreyfingar Akraness, um smekkleysi og að fara með umræðuna niður á áður óþekkt plan með því að setja atvinnurekendur í hlutverk nasista.
Vilhjálmur setti í gærkvöld inn myndband á Youtube þar sem nýr texti var settur undir fræga einræðu Adolfs Hitlers í bíómyndinni Der Untergang. Vilhjálmur segir á heimasíðu verkalýðsfélagsins að myndbandið hafi fallið í góðan jarðveg og félagið hafi fengið mjög jákvæð viðbrögð vegna þess.
Samtök atvinnulífsins eru hins vegar allt annað en ánægð með þetta skref verkalýðsfélagsins. „Þar fer formaðurinn niður á áður óþekkt plan í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Samtök atvinnulífsins eru hvenær sem er tilbúin í rökræðu um kjarasamninga og efnahagsmál en frábiðja sér slíka smekkleysu.“
Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn á Húsavík segja í yfirlýsingu að auglýsing SA, sem birt var í sjónvarpi í vikunni sé „ósmekklegur hræðsluáróður“. SA segja að í stað þess að ræða málið efnislega er í ályktun frá félögunum „gripið til ódýrra og ósmekklegra áróðursbragða þar sem hjólað er í fólk og dregin upp af því skrumskæld mynd.“
Verkalýðsfélag Akraness segir um auglýsingu SA að þar komi ekki fram að launaþróunin á Íslandi hafi verið langt umfram það sem samið hefur verið um í kjarasamningum, en frá febrúar 2008 til dagsins í dag hafa launataxtar kjarasamninganna hækkað um 24,6% en launavísitalan um 38,6%. „Með öðrum orðum, fyrir hverjar 1.000 krónur sem verkafólk á töxtum hækkar um, eru meðallaun í landinu að hækka um 1.569 krónur. Það er því ómögulegt að kröfuhörku verkafólks á töxtum sé um að kenna þegar ekki tekst að halda verðbólgu í skefjum og ná viðvarandi stöðugleika og líklegra er að þau hjá Samtökum atvinnulífsins ættu að líta sér nær þegar leita skal leiða til að viðhalda stöðugleika hér á landi og skoða launaþróunina innan sinna eigin raða.“
SA segja það rangt að verkafólk sem fái greidd laun samkvæmt umsömdum kauptöxtum hafi hækkað mun minna í launum en aðrir. „Staðreyndin er sú að lágmarkslaunin hafa hækkað um 63,2% frá janúar 2008, eða úr 125.000 kr. í 204.000 kr. Lægsti kauptaxti hefur hækkað um 60,1% á sama tíma, úr 119.752 kr. í 191,752 kr. Launavísitalan hefur hækkað um 40,4% á sama tíma. Kaupmáttur lágmarkslaunanna hefur hækkað um 11% en kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu hefur lækkað um 5%.“