Góð veiði í Kolgrafafirði

Frá Kolgrafafirði.
Frá Kolgrafafirði. mbl.is/Rúnar

Bátar eru komnir til síldveiða á Kolgrafafirði. „Það er ágætis veiði þarna,“ segir Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði, í samtali við mbl.is. Á níunda tímanum voru fjórir bátar komnir til veiða innan brúar í firðinum og er von á fleirum í dag.

Hafsteinn segir að fjórir bátar frá Grundarfirði séu nú á Kolgrafafirði, en þeir lögðu af stað um fimmleytið í morgun. Aðspurður segir Hafsteinn að aðstæður til veiða séu góðar og veiðarnar hafi gengið vel. Um er að ræða smábáta sem geta tekið um það bil fjögur til fimm tonn um borð.

Í gær ákvað umhverfisráðherra að gefa síldveiðar frjálsar innan brúar í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi. Ráðherra vonaðist til þess að veiðarnar gætu hvort tveggja bjargað verðmætum og haft mögulegan fælingarmátt þannig að síldin gengi fyrr út úr firðinum en ella.

Aðeins er hægt að fara undir brúna í Kolgrafafirði á fjöru og því hafa menn orðið að leggja af stað snemma, en þeir hafa um tólf tíma til að athafna sig við veiðarnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka