„Við höldum áfram á morgun. Við getum ekki látið tvo milljarða drepast þarna aftur,“ segir Kristinn Ólafsson, smábátasjómaður í Grundarfirði, en hann hefur verið við síldveiðar á bát sínum Björt.
„Þetta hefur gengið vel,“ segir Kristinn en hann var að landa í Grundarfirði þegar mbl.is ræddi við hann. Síldin fer til vinnslu á Akranesi. „Ég fer aftur á morgun ef veður leyfir. Mér finnst ekki annað hægt en að reyna að bjarga þessum verðmætum. Það er óhemju af síld þarna. Mér kæmi ekki á óvart þó þetta væru 100 þúsund tonn.“
Kristinn sagði að veiðarnar hefðu gengið vel í morgun. Um miðjan daginn hefði dregið úr veiðinni, eins og oft gerist, en aukist síðan aftur þegar kvöldaði.
Kristinn segir ekkert stórmál að fara undir brúna á Kolgrafafirði ef menn fari varlega. Ljós voru sett upp á brúna í dag og segir Kristinn það vera til bóta.
Bæjarstjórnir Grundarfjarðar og Stykkishólms, funduðu í morgun, með hagsmunaaðilum, þar sem m.a. var rætt um þann möguleika að koma upp löndunaraðstöðu í Kolgrafafirði. Sigurborg Kr. Hannesdóttir, forseti bæjarstjórnar í Grundafirði, segir þetta vera áfram til skoðunar. Endanlega ákvörðun um hvort farið verði út í þetta verði ekki tekin fyrr en á mánudaginn. Menn vilji m.a. heyra í sjómönnum og meta reynslu þeirra af veiðunum.
Kristinn hvetur til þess að reynt verði að koma upp löndunaraðstöðu í firðinum. Arnar Kristinsson, sjómaður á Kidda RE, segir einnig til bóta að koma upp löndunaraðstöðu, en hann segir að áður þurfi að liggja fyrir hvort frjálsar veiðar í Kolgrafafirði séu einungis hugsaðar í fjóra daga eins og reglugerð ráðuneytisins gerir ráð fyrir eða til lengri tíma.
Arnar og Kristinn eru sammála um að ósennilegt sé að síldin syndi út úr firðinum. Arnar segir að þegar síld hafi gengið inn í fjörðinn hafi hún annað hvort verið þar fram í mars og synt þá út eða drepist í firðinum.
Sigurborg segir að 12 bátar hafi verið við síldveiðar í Kolgrafafirði í dag. Fjórir hafi landað í Grundarfirði, en hinir hafi farið til Stykkishólms, en þar er verið að vinna síld.
Arnar segist eiga von á að fleiri bátar fari til síldveiða í Kolgrafafirði á morgun.