12 bátar eru nú við veiðar í Kolgrafafirði innan brúar, en síldveiðar þar voru gefnar frjálsar til 26. nóvember í þeirri von að koma í veg fyrir síldardauða á borð við þann sem varð þar síðast þegar síld gekk inn í fjörðinn.
Hafsteinn Garðarsson, hafnarstjóri í Grundarfirði, segir til skoðunar komi að setja upp einhvers konar löndunaraðstöðu innan við brúna til að koma í veg fyrir að smábátarnir þurfi að sigla undir brúna yfir Kolgrafafjörð. Þeim siglingum geti fylgt mikil hætta.
„Það er margt í athugun og mikil veiði og mikið af síld fyrir innan,“ segir Hafsteinn. Hann segir vonir manna um að síldin myndi ganga aftur undir brúna við aukið rót í firðinum ekki hafa gengið eftir. „Maður veit það samt ekki.“
Hafsteinn segir til skoðunar að setja upp löndunaraðstöðu fyrir innan brúna til að draga úr slysahættunni sem fylgir því að sigla undir brúna. „Þó það kosti eitthvað að setja hana upp, þá kosta slysin líka.
Arnar Kristinsson á Kidda RE er að veiðum í Kolgrafafirði. „Þetta lítur vel út. Það er búin að vera allt í lagi veiði hérna í morgun, mikil lóð, þannig að þetta hefur verið ágætt.“ Hann tekur þó undir með Hafsteini um að ekki líti út fyrir að rótið innan við brúna fæli síldina til baka.
„Ég hef enga trú á því að hún sé að fara undir brúna aftur.“ Hann segir svo mikla síld fyrir innan brúna að varla sjái högg á vatni. „Þetta er bara „peanuts“ sem við náum að veiða á þessum litlu bátum.“ Veðrinu lýsir hann hins vegar eins og „í baðkarinu heima,“ þannig að náttúruöflin leggjast frekar á sveif með sjómönnum frekar en hitt.
Arnar bendir á að sú reglugerð sem nú gildir um veiðar innan brúarinnar gildi aðeins fram á þriðjudaginn 26. nóvember. „Eftir það mega menn bara veiða þessi átta tonn á viku, þá hafa allir allan heimsins tíma. Ef það á hins vegar að vera áfram þannig að menn megi veiða eins og þeir geta, þá væri gríðarlega þægilegt að hafa löndunaraðstöðu hérna.“
Hann segir tímann fram á þriðjudag hvergi nærri duga til að veiða alla þá síld sem sé innan við brúna.