Aðalfundur Lögreglustjórafélags Íslands var haldinn föstudaginn 22. nóvember í Kópavogi. Ólafur Helgi Kjartansson ákvað að hætta sem formaður félagsins, en tók þess í stað að sér varaformennsku. Hann vonar að boðaðar skipulagsbreytingar muni efla lögregluna.
„Ég er hvorttveggja jafnréttissinnaður og þeirrar skoðuna að fólk eigi að skipta þessu með sér,“ segir hann, en Halla Bergþóra Björnsdóttir tók við keflinu af Ólafi Helga.
Hann segist bjartsýnn á stöðu lögreglunnar. „Lögreglumönnum hefur fækkað eftir hrun. Því miður hefur Alþingi neyðst til að skera niður og það hefur bitnað á lögreglunni líka. Eitt af því sem við hjá félaginu viljum gera er að vinna með innanríkisráðherra þannig að við séum með í ráðum.“
Ólafur skýtur á að hver lögreglumaður kosti á ársgrundvelli að meðaltali átta til átta og hálfa milljón króna. „Við gerum okkur auðvitað vonir um það að sú ákvörðun að verja 500 milljónum til lögreglunna hafi sín áhrif. Ætlunin er að öll fjárhæðin fari í það að styrkja lögregluna og auka starfsemina.“
Hann segir gríðarmikla þörf á fjölgun lögreglumanna, og að þeir þurfi að vera tæplega 850 á landsvísu, en séu nú nær 600. „Það vantar því á þriðja hundrað lögreglumenn.“
Ólafur segist hafa sótt heim lögregluskólann í Danmörku fyrir nokkru. Lögreglunám í Danmörku er 132 vikur að lengd, án frívikna, en er um 52 vikur á Íslandi að meðtöldu fríi. Hann telur þörf á að efla menntun lögerlumanna hér á landi, eins og kemur fram í yfirlýsingu félagsins.
„Námið í Danmörku er starfstengt bachelornám. Við þurfum fyrst og fremst að efla grunnnám lögreglumanna hér á Íslandi, en skoða svo framhaldsnámið,“ sem hann segir aðallega felast í námskeiðum og stjórnendanámi. „Áður var starfsnámið lengra en það var í dag hér á Íslandi. Við þurfum að skoða hvert við viljum stefna í þessum efnum.“
Um 20 nemar er á hverju ári útskrifaðir frá Lögregluskóla ríkisins, en ekki hefur verið hægt að tryggja öllum þeim sem þaðan útskrifast starf strax að lokinni útskrift.
„Ég er bjartsýnismaður,“ segir Ólafur. „Ég geri mér vonir um það að með þeim fjárveitingum sem hafa verið ákveðnar og stækkun lögregluumdæma þá muni möguleikar á því að fólk geti fengið starf aukast. Núverandi ástand er vonandi tímabundið.“
Lögreglustjórafélagið sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu eftir fundinn:
„Fundinn sóttu 16 af 19 félagsmönnum, en 3 áttu ekki heimangegnt að þessu sinni. Lögreglustjórar á Íslandi eru nú 15 um allt land, auk ríkislögreglustjóra, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins og tveggja aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Fundinn sóttu 16 af 19 félagsmönnum, en 3 áttu ekki heimangegnt að þessu sinni.Tilgangur félagsins er að vera vettvangur faglegrar umræðu innan lögreglunnar, meðal annars með því að stuðla að betra starfsumhverfi hennar, efla samstarf og samvinnu félagsmanna, vera ráðgefandi og hafa frumkvæði gagnvart ríkisstjórn og Alþingi um nýmæli í löggjöf, sem vænta má að snerti verksvið félagsmanna eða þegar óskað er eftir áliti félagsins.
Einnig ber félaginu að stuðla að samræmi í lagaframkvæmd og embættisfærslu félagsmanna ásamt fleiru er varða hag þeirra og lögreglunnar á Íslandi.
Á fundinum var mikið rætt um jafnréttismál í lögreglunni og kom skýrt fram í þeirri umræðu að lögreglustjórar legðu ríka áherslu á þeim málaflokki yrði sinnt af festu og ábyrgð.
Álit fundarins er að félagsmenn þurfi stöðugt að vera vakandi í málefnum er snúa að jafnrétti og vera á verði að þar fari ekkert úrskeiðis. Ávallt verða að vera til tæki og leiðir til þess að leysa það sem úrskeiðis kann að fara. Einnig komu til umræðu þær skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á stjórn og umdæmum lögreglunnar á Íslandi.
Lögreglustjórafélagið telur mikilvægt að vel verði að þeim breytingum staðið og lögreglustjórarnir komi að því starfi varðandi undirbúning og fleira og félagið vill vinna með innanríkisráðherra í þeim efnum með vísan til skýrslu nefndar um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Markmiðið er að breytingar takist sem best öllum til hagsbóta.
Lögreglustjórafélagið telur brýnt að efla lögregluna á Íslandi og menntun lögreglumanna, sem sífellt þurfa að takast á við ný og erfið verkefni.
Ýmis fleiri mál voru rædd á fundinum, en þar var einnig kosin ný stjórn.
Nýja stjórn skipa Halla Bergþóra Björnsdóttir, Akranesi, formaður, Ólafur Helgi Kjartansson, Selfossi, varaformaður, sem ekki óskaði endurkjörs til formennsku, Bjarni Stefánsson, Blönduósi og Sauðárkróki, ritari, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, Suðurnesjum, gjaldkeri og Kjartan Þorkelsson, Hvolsvelli, meðstjórnandi.
Úr stjórn gengu, Ólafur K. Ólafsson lögreglustjóri Snæfellinga og Björn Jósef Arnviðarson, Akureyri. Voru þeim þökkuð góð stjórnarstörf. Björn Jósef var sérstaklega kvaddur á þessum tímamótum, en hann mun láta af störfum lögreglustjóra í umdæmi lögreglunnar á Akureyri um komandi áramót, en það er eitt hið stærsta á landinu og fjömennast utan suðvesturhluta Íslands. Vorum honum þökkuð farsæl störf í embætti og óskað velfarnaðar við starfslok.“