Handboltakappinn og rithöfundurinn Bjarni Fritzson og Kristín Tómasdóttir rithöfundur gáfu nýlega út bókina Strákar. Bókin er hugsuð sem leiðarvísir og uppflettirit fyrir stráka um allt mögulegt.
„Fyrir rúmu ári hafði Kristín samband við mig og sagði mér frá þessari hugmynd. Hún spurði hvort ég væri til í samstarf með henni því hún var að leita að einhverjum til að skrifa strákabók. Þetta kom alveg flatt upp á mig þar sem ég er ekki þekktur fyrir skrif en ákvað að kýla á þetta. Ég sagði nú samt við hana að ef ég væri hræðilegur í þessu mætti hún bara finna einhvern annan,“ segir Bjarni og hlær. „Þetta er hagnýt strákabók með upplýsingum sem snertir stráka um mjög margt. Þetta er líka hvatningarbók og einblíndum við á að hafa hana létta og skemmtilega en á sama tíma fræðandi og áhugaverða. Það eru til að mynda svör við spurningum þarna sem strákar eru ekki vanir að spjalla um en skipta engu að síður miklu máli. Bókin er ætluð til að leita að lausnum og leiðum varðandi ýmislegt sem strákum finnst óþægilegt að spyrja foreldra sína að eða sem er óþægilegt að ræða um í vinahópnum.“
Í bókinni koma fyrir ýmsir þjóðþekktir einstaklingar og afreksmenn sem gefa góð ráð eða innsýn í hvernig hlutirnir hafi verið þegar þeir voru unglingar sjálfir og fleira. Má þar nefna Ólaf Stefánsson handboltastjörnu, Alfreð Finnbogason landsliðsfótboltamann, Loga Bergmann fréttamann, Jón Gnarr borgarstjóra, Pál Óskar söngvara og Guðmund Jörundsson fatahönnuð. „Við eigum svo mikið af flottum karlkyns fyrirmyndum á fjölbreyttum sviðum sem ungir strákar geta litið upp til.“
Bjarni segir að það hafi verið þörf á bók sem þessari. Mikið sé rætt við stelpur um alls kyns mál sem tengjast þessu mikilvæga tímabili en strákarnir hafi aðeins verið settir til hliðar. „Það vantar algjörlega að vinna með strákum og leggja meiri áherslu á það sem þeir þurfi að læra og gera. Mér finnst þessi þjóðfélagshópur hafa verið skilinn eftir. Það er mikið talað um stráka og oft um hvað þeim gangi illa í skóla og hvað þeir séu nú ofvirkir og slíkt en svo eru hrikalega fáir sem tala eitthvað við þá. Það þarf að vinna með þeim að einhverjum lausnum og leiðbeina þeim,“ segir Bjarni en hugmyndin að bókinni snerti hann persónulega. Hann hefur lengi haft áhuga á stöðu stráka bæði í samfélaginu og í skólum. „Ég ætlaði að skrifa lokaverkefnið í sálfræði um stráka í skólum, þannig að þetta var mjög skemmtileg tilviljun þar sem ég hafði svo mikinn áhuga á þessu persónulega. Þetta hitti því vel á,“ segir Bjarni en hann er með BSc gráðu í sálfræði og lýkur meistaragráðu í félags- og vinnusálfræði í sumar.
Bjarni og Kristín hafa tekið upp á því að mæta í skóla og spjalla við krakkana, Kristín við stelpurnar og Bjarni við strákana. Viðbrögðin hafa verið mjög góð. „Síðastliðna tvo mánuði höfum við verið að fara í skóla til að halda fyrirlestra og spjalla við krakkana. Kennararnir koma og tala um það að það vanti einhvern til að tala um stráka og hefur því verið tekið vel í þetta. Það er meira framboð á því að spjalla við stelpur en mikilvægt að opna umræðuna fyrir strákum.“