„Síbrotamenn á sviði ærumeiðinga“

Hluti af umfjölluninni birtist á dv.is.
Hluti af umfjölluninni birtist á dv.is.

„Það er með ólíkindum að ungur maður skuli tekinn opinberlega af lífi með þeim hætti sem þarna var gert. Þetta var dómstóll götunnar og DV í sinni verstu mynd,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í málflutningsræðu vegna meiðyrðamáls ungs karlmanns á hendur ritstjóra og framkvæmdastjóra DV.

Málið höfðaði maðurinn vegna umfjöllunar í blaðinu í ágúst 2012. Þá fjallaði DV um „tekjur liðsmanna Hells Angels, Outlaws, liðsmanna stuðningsklúbba þessara félaga auk þekktra ofbeldismanna,“ eins og það var orðað. Maðurinn sem var ákærður og hlaut skilorðsbundinn dóm í Íbúðalánasjóðsmálinu svonefnda var afar ósáttur við umfjöllun DV og sagði við skýrslutöku í morgun að hún hefði valdið honum töluverðum vandræðum. „Það tók langan tíma að útskýra fyrir tengdafólki og vinum að maður væri ekki í þessu [skipulögðum glæpasamtökum].“ Hann sagðist einnig hafa verið tekinn á teppið í vinnu sinni og átt langan fund með vinnuveitanda sínum vegna þessa.

Maðurinn sem er um tvítugt var spurður að því hvort hann hefði verið í Fáfni, Vítisenglum (e. Hells Angels) eða einhverjum samtökum sem skilgreind hafa verið sem glæpasamtök og neitaði hann því. Þá hefði hann verið í launaðri vinnu frá því í mars 2010 og þaðan hafi öll laun hans komið.

Lögmaður ritstjóra og framkvæmdastjóra DV spurði þá hvort hann hefði verið í stuðningsklúbbi Vítisengla, Fáfnis eða annarra slíkra samtaka og neitaði maðurinn því. Hann viðurkenndi hins vegar að hafa tvívegis komið fyrir utan félagsheimili Fáfnis en þá hafi hann verið í fylgd bróður síns sem var í Fáfni. Sem kunnugt er varð Fáfnir síðar að Vítisenglum.

Vill að DV finni fyrir því

Maðurinn fer fram á að sjö tiltekin ummæli verði dæmd dauð og ómerk og að ritstjóri og framkvæmdastjóri DV, þeir voru á þeim tíma báðir ritstjórar DV, verði dæmdir til að greiða eina milljón króna til hans í bætur. Enginn blaðamaður var merktur fyrir umfjöllun DV og því var ritstjórum stefnt.

Ummælin eru:

  • Láglaunamenn í undirheimum.
  • Mánaðarlaun opinberra meðlima í íslenskum undirheimasamtökum ekki há.
  • Liðsmenn félaga sem íslensk lögregluyfirvöld hafa sett á athugunarlista yfir samtök sem stunda skipulagða glæpastarfsemi eru ekki með há laun miðað við álagningarskrá ríkisskattstjóra.
  • DV kannaði laun nokkurra einstaklinga sem opinberlega hafa verið kenndir við eða kenna sig sjálfir við samtök sem sögð eru tengjast skipulagðri glæpastarfssemi.
  • Meðal annars kannaði DV tekjur liðsmanna Hells Angels ...
  • Laun í undirheimum.
  • [...] tengist Hells Angels 277.

Lögmaður mannsins sagði að í umfjöllun DV hefði ranglega verið fullyrt að maðurinn tengdist Vítisenglum og að hann væri félagi í samtökunum. Þá sé ekki hægt að álykta öðruvísi út frá umfjölluninni en að DV segi laun hans tilkomin vegna starfa í undirheimum. Vísaði hann þá í staðfestingu vinnuveitanda mannsins á því að launin væru þaðan komin.

Hann sagði að alvarlega væri vegið að æru mannsins. Það að vera sakaður um að vera í glæpasamtökum og fá laun sín í undirheimum sé klárlega ærumeiðandi aðdróttun. Sú háttsemi að vera meðlimur í glæpasamtökum sé einnig siðferðislega ámælisverð í huga almennings. „Ummælin eru ósönn, óviðurkvæmileg og smekklaus. Hann hefur aldrei verið í glæpasamtökum eða haft tengsl við slík samtök.“

Þá sagði Vilhjálmur að þetta væri ekkert einsdæmi hjá DV. „Þetta gera þeir ítrekað og hafa ítrekað verið dæmdir fyrir þetta, að fara fram með ósannar fullyrðingar um að þessi og hinn hafi brotið af sér. Það er kominn tími til að leyfa þessum ágætu mönnum að finna fyrir því þar sem það hittir þá verst fyrir, og það er í pyngjunni. [...] Þetta eru síbrotamenn á sviði ærumeiðinga og virðingarleysi þeirra gagnvart þeim dómum sem fallið hafa gegn þeim er algjört.“

Hann sagði að send hefði verið krafa um leiðréttingu þegar blaðið kom út en þeirri kröfu hefði ekki verið svarað. Brot þeirra hafi verið framið af ásetningi og það eigi að leiða til refsiþyngingar auk ítrekunaráhrifa fyrri dóma. „Það er kominn tími til að stemma stigu við þessari blaðamennsku stefndu sem fara fram með flennifyrirsagnir og fréttir sem enginn fótur er fyrir, ítrekað og viljandi í því skyni að selja fleiri eintök af viðkomandi blaði.“

Vilhjálmur sagði að þeir væru ítrekað dæmdir til að greiða tvö hundruð eða þrjú hundruð þúsund krónur í miskabætur og ekki gerð refsing. „Það þýðir að þeir hafa hag af því að hegða sér með þessum hætti, því hagnaðurinn af því að flytja slíkar fréttir er meiri en kostnaðurinn sem viðkomandi verða fyrir þegar þeir á endanum hljóta dóm.“

Að lokinni ræðu Vilhjálms spurði dómari sérstaklega hvort fjallað hefði verið um það í dóminum sem féll í Íbúðalánasjóðsmálinu að skipulögð glæpasamtök hefðu verið viðriðin málið. Hann sagði svo ekki hafa verið.

Skoða þurfi umfjöllunina í heild

Katrín Smári Ólafsdóttir, lögmaður ritstjóra og framkvæmdastjóra DV, gerði þá kröfu að þeir yrðu sýknaðir. Hún sagði að í greininni væri fjallað á glettinn hátt um laun nokkurra manna sem uppfylli eitt af þremur atriðum; þeir séu meðlimir í samtökum sem skilgreind eru sem glæpasamtök, séu tengdir slíkum samtökum eða séu dæmdir ofbeldismenn. Sérstaklega hafi þó verið tekið fram í greininni að DV fullyrði ekki að þeir hafi allir gerst brotlegir við lög.

Hún fór sérstaklega yfir öll ummælin og sagði að ýmist fjölluðu þau ekki um manninn eða væru sönn. Greinin í heild hafi ekki fjallað um hann heldur komi nafn hans tvívegis fram og þá undir yfirskriftinni Fimm fræknu. Þá hafi í fréttaflutningi ítrekað komið fram að sakborningar í Íbúðalánasjóðsmálinu hafi verið meðlimir í Fáfni og að brotin hafi verið liður í inngöngu Fáfnis í Vítisengla.

Ein ummæli af sjö séu þó beinlínis um manninn: „[...] tengist Hells Angels 277.“ Katrín sagði að því hefði ekki áður en við aðalmeðferðina í morgun verið mótmælt að maðurinn tengdist Fáfni, sem urðu að Vítisenglum. Hún mótmælti sökum þess orðum lögmanns mannsins í þá veru, sagði þá málsástæðu hafi komið of seint fram í málinu og bað dóminn um að taka hana ekki til greina. Þá sagði hún ljóst að maðurinn tengdist Fáfni. Bróðir hans hefði verið í Fáfni og hann hafi sjálfur komið í félagsheimili samtakanna. „Hvernig er hægt að halda því fram að einhver sem tengdist Fáfni tengist ekki Hells Angels?“

Katrín sagði það einnig rangt hjá lögmanni mannsins að því sé haldið fram í umfjölluninni að hann sé meðlimur í samtökum sem skilgreind hafa verið sem glæpasamtök. Því sé eingöngu haldið fram að hann tengist Vítisenglum. Hún sagði að það gengi ekki að taka bút úr setningum, leggja út frá þeim á versta veg og krefjast svo ómerkingar á þeirri túlkun. Þannig mætti segja að túlkun lögmannsins mannsins í stefnunni sé ærumeiðandi, og í raun sé grafalvarlegt að gera blaðamanni upp þær meiningar sem þar koma fram. Skoða þurfi umfjöllun DV í heild sinni auk þess sem ummælin sem eiga við um manninn séu sönn. Önnur sem stefnt sé fyrir beinist ekki að honum.

Þá mótmælti hún harðlega að maðurinn hefði verið tekinn opinberlega af lífi í umfjölluninni. Mögulega hafi eitthvað annað í lífi hans, eins og níu mánaða fangelsisdómur fáeinum mánuðum síðar, haft eitthvað með vandræði hans að gera. Og enga þýðingu hafi við úrlausn þessa máls þó ritstjórar DV hafi áður verið dæmdir í meiðyrðamálum.

Eftir að Katrín lauk máli sínu spurði dómari hana hvort það væru einhver gögn í málinu sem tengdu manninn við Vítisengla. Hún sagði sýnileg sönnunargögn ekki liggja fyrir enda hefði ekki verið tilefni til að afla slíkra gagna.

Skjalleg gögn ónauðsynleg

Í andsvörum sagði Vilhjálmur sérkennilegt að heyra það hjá lögmanni ritstjóra og framkvæmdastjóra DV að ekki hefði verið tilefni til að afla þeirra sönnunargagna. „Telji stefndu og lögmaður stefndu að fréttin sé reist á traustum grunni og að stefnandi hafi verið í þessum samtökum eða forvera þeirra þá ber stefndu að sanna það. Það er augljóst.“

Katrín áréttaði í seinni ræðu sinni að ekki hefði verið nauðsynlegt að leggja fram skjalleg gögn um tenginguna við Fáfni eða Vítisengla. Hins vegar hefði maðurinn greint frá því sjálfur að hann hefði bæði komið fyrir utan félagsheimili Fáfnis og að bróðir hans hafi verið í samtökunum.

Að loknum málflutningsræðum var málið tekið til dóms og verður dómur kveðinn upp á næstu vikum. Fleiri sambærileg mál eru á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í dag því eftir hádegi fer fram aðalmeðferð í máli annars manns sem taldi DV hafa meitt æru sína með sömu umfjöllun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert