Kona á áttræðisaldri, sem greiddi tæplega fjórar milljónir fyrir búseturétt í íbúð Búmanna í Grindavík, hefur aldrei fengið peningana til baka, en fimm ár eru síðan hún flutti úr íbúðinni. Konan veiktist stuttu eftir að hún flutti inn og bjó aðeins rúmlega fjóra mánuði í íbúðinni.
Íbúðir Búmanna eru skilgreindar fyrir 50+. Konan flutti inn í íbúðina vorið 2008, en þurfti að flytja á hjúkrunarheimili í september sama ár. Dóttir hennar er mjög ósátt við að móðir hennar hafi ekki fengið neitt fyrir búseturéttinn.
„Ég fékk þau svör hjá Búmönnum að mamma þyrfti að halda íbúðinni í tiltekinn tíma áður en hægt væri að segja henni upp. Hún gerði það og hélt áfram að borga af henni. Þegar þau tímamörk nálguðust fékk ég hins vegar þau svör að hún væri í öðru skipulagi og yrði að selja réttinn til að fá hann greiddan. Hún mátti hins vegar ekki auglýsa hann sjálf heldur yrði salan að fara í gegnum Búmenn. Ég gat ekkert gert sem mér fannst afar ósanngjarnt. Mér var sagt að mamma ætti þarna eign, en samt mátti hún ekkert gera til að selja hana. Ég sá íbúðina aldrei auglýsta í blöðunum, en hún var á skrá á heimasíðu Búmanna yfir lausar eignir um tíma. Ég geri mér grein fyrir að veikindi mömmu komu upp á versta tíma og það var ekki auðvelt að selja á þessum tíma, en engu að síður er þessi niðurstaða ömurleg,“ segir dóttir konunnar.
Konan fékk í fyrstu leigjendur í íbúðina, en síðar tóku Búmenn við henni. „Ég hætti að borga af íbúðinni. Mamma fór á dvalarheimili og það fór allir hennar peningar í að borga fyrir dvölina þar. Ég reyndi að hjálpa henni með að borga af íbúðinni í Grindavík í ákveðinn tíma en svo gafst ég upp.
Ég stóð í þeirri trú að hún gæti sagt íbúðinni upp og fengi þá búseturéttargjaldið endurgreitt, en Búmenn segja að reglunum hafi verið breytt. Eftir að ég gafst upp við að borga hlóðst upp skuld hjá Búmönnum og þeir segja að sú skuld gangi upp í gjaldið. Ég þurfti því að horfast í augu við að við værum búin að tapa þessum 4 milljónum sem mamma lagði fram þegar hún fór inn í íbúðina.“
Konan er afar ósátt við þau svör sem hún fékk frá Búmönnum. Þau hafi verið misvísandi og móttökur sem fólkið sem hún fékk til að leigja íbúðina hafi verið fyrir neðan allar hellur. „Ég gafst bara upp. Ég hefði kannski þurft að fá mér lögfræðing á sínum tíma, en ég hafði bara ekki tök á því. Þessir peningar hurfu bara,“ segir dóttir konunnar.
Nokkrir íbúar við Víðigerði í Grindavík hafa ákveðið að fara í dómsmál við Búmenn og láta þannig reyna á rétt sinn. Guðlaug Gunnarsdóttir er í forsvari fyrir hópinn.
„Árið 2008 sá ég auglýsingu um að það væri verið að byggja fyrir eldri borgara í Grindavík. Ég átti ágæta íbúð á þeim tíma og seldi hana og losaði þannig pening. Ég ætlaði að hafa það þokkalegt í ellinni eftir að hafa verið á vinnumarkaði í meira en 40 ár. Þetta eru hins vegar einhver mestu mistök sem ég hef gert, að fara inn í Búmenn,“ segir Guðlaug.
Guðlaug greiddi rúmlega 3,5 milljónir fyrir búseturéttinn. Samkvæmt samningi sem hún gerði snemma árs 2008 átti hún að greiða 106.386 krónur á mánuði, en inn í þeirri upphæð er afborgun á fasteignaláni, framlag í viðhaldssjóð, fasteignagjöld, brunatrygging og þjónustugjald. Við hrunið hækkuðu greiðslur af íbúðinni vegna þess að þær voru vísitölutryggðar með láni frá Íbúðalánasjóði. Í dag er mánaðargjaldið 148.000 krónur.
Guðlaug fór út úr íbúðinni í byrjun þessa árs og fékk sér leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu. Hún segist ráða illa við að borga þessa háu leigu og er byrjuð að vinna aftur, en hún er 74 ára gömul og heilsuhraust.
Guðlaug hefur ekki fengið búseturéttargjaldið endurgreitt, en segist hafa staðið í þeirri trú að það yrði greitt þegar hún segði íbúðinni upp. Viðbrögð Búmanna við uppsögn hennar á íbúðinni hafi verið þau að senda henni greiðsluáskorun vegna fimm ógreiddra reikninga upp samtals 857.049 krónur.
Guðlaug segir að sveppavandamál hafi verið í íbúðinni. Ráðtak sf. lét gera mælingar í tveimur íbúðum við Víðigerði, en í niðurstöðunni segir: „Sveppagróður mældist í íbúðinni og er yfir viðmiðunarmörkum í gluggum í herbergjum. Gluggar eru óþéttir og mikil rakamyndun í þeim.“
Gert var við íbúðirnar, en Guðlaug segir að til að fjármagna viðgerðina hafi viðhaldssjóðurinn verið tæmdur. Hún segir að sjóðinn hafi ekki átt að nota í lagfæringar sem flokkist undir mistök verktaka. Íbúðirnar hafi aldrei verið í lagi þegar þær voru afhentar nýbyggðar árið 2008.
Búmenn starfa eftir lögum um húsnæðissamvinnufélög frá árinu 2003. Samkvæmt 20. gr. laganna er „uppsagnaréttur af hálfu búseturéttarhafa ... sex mánuðir.“
Árið 2006 var samþykktum Búmanna breytt á aðalfundi félagsins á þann veg að kaupskylda Búmanna var afnumin. Þessar breyttu reglur náðu aðeins til nýrra íbúða, en áfram var kaupskylda á eldri íbúðum. Þessi breyting var borin undir félagsmálaráðuneytið sem sama ár komst að þeirri niðurstöðu að ný samþykkt Búmanna rúmaðist innan ramma laga um húsnæðissamvinnufélög.
Guðlaug segir að þetta nýja fyrirkomulag hafi aldrei verið kynnt fyrir sér. Hún hafi ekki verið á aðalfundi Búseta 2006 og hún hafi alltaf staðið í þeirri trú að hún gæti fengið búseturéttargjaldið endurgreitt þegar hún færi úr íbúðinni.
Guðlaug bendir á að á skattaskýrslu hafi búseturéttargjaldið verið skráð rúmlega 4,7 milljónir árið 2011. Árið eftir hafi það hins vegar verið skráð 3,5 milljónir. Hún segist ekki hafa fengið skýringar á því hvers vegna þessi eign sín hafi verið lækkuð um tæplega 1,2 milljónir.
Guðlaug sendi Eygló Harðardóttur, húsnæðis- og félagsmálaráðherra bréf fyrr á þessu ári þar sem hún rekur ágreininginn við Búmenn. Í svari ráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi ekki úrskurðarvald í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um túlkun laganna. Ágreininginn verði að leysa fyrir dómstólum. Ráðuneytið segist hins vegar vera „þeirrar skoðunar að ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 23 gr. samþykkta Búmanna hsf. þar sem fram kemur að búsetusamningar séu óuppsegjanlegir af hálfu félagsins og búseturéttarhafa, fari gegn ákvæði 20. gr. laga um húsnæðissamvinnufélög.“
Daníel Hasteinsson, framkvæmdastjóri Búmanna, segir félagið ekki áforma að breyta samþykktum sínum þrátt fyrir þetta bréf ráðuneytisins. „Þessar samþykktir voru staðfestar af ráðuneytinu á sínum tíma og við höfum unnið eftir þeim.“
Daníel leggur áherslu á að uppsagnarákvæði eigi aðeins við um kaupskyldukerfið. „Í allri úrvinnslu félagsins á þessu nýja kerfi, þ.e. markaðskerfi, er ekki gert ráð fyrir að það sé hægt að segja þessu upp. Þetta kerfi byggir á því að búseturétturinn sé markaðsvara.“
Daníel segir að þegar fólk þurfi að fara út úr íbúðunum af einhverri ástæðu setji fólk verðmiða á búseturéttinn. Ef hann seljist ekki þurfi fólk að skoða þann kost að lækka ásett verð. „Það er mikið af fólki sem finnst að það eigi að fá það sem það greiddi á sínum tíma þó að það sé engin kaupskylda.“
Daníel segir að gert sé ráð fyrir því í samþykktum Búmanna að fyrsta tilraun til sölu fari fram í gegnum Búmenn, m.a. til að gefa félagsmönnum tækifæri til að kaupa. Síðan geti fólk sjálft reynt að selja réttinn sjálft með því að auglýsa eða leita til fasteignasala. Það hafi margir gert það, en Daníel segir að Búmenn vilji gjarnan sjá hvernig auglýsingin lítur út til að tryggja að ekki sé verið að setja fram villandi upplýsingar.
„Ef ekkert tilboð berst þá gerist ekkert meir. Íbúðin er þá bara á skrá hjá okkur. Ef fólk er ekki tilbúið til að lækka verðið og vill bara fá það verð sem það greiddi upphaflega þá eru menn bara læstir inn. Ef menn þráast við og bara segja upp fer eins og með alla samninga ef annar aðilinn segir upp, að þá fellur samningurinn niður og búseturéttargjaldið fellur niður. Það eru gagnkvæmar skyldur tilgreindar í þessum búsetusamningi. Ef fólk vill nýta sér ákvæði í lögum um húsnæðissamvinnufélög og segja upp með sex mánaða uppsagnafresti þá er komin upp staða sem menn hafa verið að kalla eftir í svokölluðum lyklalögum. Menn skila þá bara inn lyklinum, en við hvetjum fólk eindregið til að fara aðrar leiðir.“
Daníel segir að það hafi gerst „í nokkrum tilvikum“ að fólk hafi skilað inn lykli sem hafi leitt til þess að fólk hafi tapað búseturéttargjaldinu, en það sé sem betur fer ekki algengt.
Nú eru 53 eignir auglýstar á vef Búmanna, þar af 38 þar sem búseturéttur byggist á frjálsri sölu. Daníel segir að þessar íbúðir standi ekki allar tómar því að margar þeirra séu í leigu.
Flestar íbúðirnar eru á Suðurnesjum. Daníel segir þetta endurspegla erfitt atvinnuástand á Suðurnesjunum. Engin vandamál séu hins vegar á höfuðborgarsvæðinu. Daníel segir dýrt að vera með tómar íbúðir. Það þyrfti að borga af lánum sem hvíla á íbúðunum, fasteignagjöld og annað. Á vef Búmanna segir að það kosti Búmenn 120 þúsund á mánuði að liggja með tóma íbúð.
Búmenn hafa átt í viðræðum við Íbúðalánasjóð um skuldamál og hafa sum lán hjá félaginu verið sett í frystingu. Hann segir að ekki sé komin lausn á fjárhagsvanda félagsins til framtíðar og menn bíði m.a. eftir boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Í síðustu viku var haldinn fundur í velferðarráðuneytinu með Búmönnum og Búsetafélögunum þar sem farið var yfir hvort þörf væri á að gera breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög. Daníel segist ekki leggjast gegn lagabreytingum. Það hafi verið reifuð sjónarmið um að lögin mættu vera skýrari. Hann leggst hins vegar alfarið gegn því að kaupskylda verði lögð á húsnæðissamvinnufélög. „Við höfum ekki áhuga á að taka upp kaupskyldu. Kaupskylda er stórhættulegt, nema bara þegar allt gengur vel.“
Þess ber að geta að Búseti stendur miklu betur fjárhagslega en Búmenn, sem er landsfélag. Reykjavíkurfélag Búseta er fyrst og fremst með íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og þar er næg eftirspurn eftir íbúðum. Félagið er með fáar lausar íbúðir á skrá.