„Ástæðan fyrir því að dómstóllinn tekur þetta til meðferðar er að það voru óeðlileg frávik í málinu og alveg tilefnislaus. Þannig að það hefði komið mér á óvart ef dómstóllinn hefði látið þetta eiga sig,“ segir Andri Árnason, lögmaður Geirs H. Haarde, um að Mannrétteindadómstóll Evrópu (MDE) hafi tekið mál Geirs til meðferðar.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hefur dómstóllinn þegar sent íslenskum stjórnvöldum erindi þar sem þetta kemur fram og spurningar um málsmeðferðina sem ber að svara fyrir mars næstkomandi. Andri segir að af spurningunum að dæma virðist dómstóllinn líta svo á að það sé tilefni til að skoða ansi mörg atriði í málinu. „Þarna eru fjórar efnisspurningar sem lúta að dómnum sjálfum, undirbúningi málsins og ákærunni þannig að dómstóllinn tekur á öllum þeim meginþáttum í málinu sem við vorum búnir að gagnrýna og krefjast frávísunar vegna. [...] Varla væri spurt um þessi atriði ef dómstóllinn teldi það tilefnislaust.“
Hann reiknar með að málsmeðferðin verði með þeim hætti að íslensk stjórnvöld svari spurningunum, sem á að gerast fyrir mars næstkomandi, og í kjölfarið fái Geir að koma athugasemdum sínum við þau svör að. Í framhaldinu taki dómstóllinn svo ákvörðun um hvort málið verði tekið til efnismeðferðar.
Í erindi MDE til íslenska ríkisins segir að ef aðilar máls séu reiðubúnir að sættast muni dómstóllinn koma með tillögur að viðeigandi lausn. „Ég held að þetta sé staðlað hjá dómstólnum á þessu stigi máls, enda óþarfi að reka málið fyrir dómstólum ef ríki og umsækjandi geta verið ásáttir um niðurstöðu.“ Hann útilokar ekki að málinu ljúki með sátt. „Ég vil ekki útiloka það enda ekkert óalgengt að málum sé lokið með sátt hjá dómstólum. Sérstaklega ef ríkin sjá að ekki hafa verið uppfyllt öll skilyrði í málarekstrinum.“
Gríðarlegur fjöldi mála berst MDE á ári hverju og er langflestum málum hafnað meðferð. Andri segir að málsnúmer Geirs hafi þannig verið í kringum áttatíu þúsund þegar það var sent inn á síðasta ári. Hann segist því ekki hafa átt von á því að málið yrði skoðað á þessu ári. „En pólitísk réttarhöld eru einhver þau alverstu þannig að þau fá alltaf skoðun. Þar er er verið að fjalla um mál sem varða lýðræðið og stjórnskipulagið sem lýðræðið byggir á. Svona mál höggva í rætur samfélagsuppbyggingarinnar.“
Aðspurður sagðist Andri ekkert geta getið sér til um tímaramma í málinu fyrir dómstólnum.