Búast við 35-40 m/s í hviðum

Suður- og suðvestan stormur gengur yfir landið í dag með krappri lægð sem fer hratt norðaustur um Grænlandssund. Víða 18-23 m/s að jafnaði um tíma, en hlýtt í veðri. Búast má við hviðum allt að 35-40 m/s nokkuð víða norð- og norðvestantil við þessar aðstæður, t.d. undir Hafnarfjalli frá því um kl. 11 til 16 sem og á norðanverðu Snæfellsnesi en í Fljótum og á Siglufjarðarvegi ásamt vestanverðum Eyjafirði út undir Ólafsfjörð frá því um miðjan daginn og fram á kvöld. Þetta kemur fram í ábendingum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Vegir eru mjög víða auðir en þó eru hálkublettir eða hálka á nokkrum vegum um norðan- og austanvert landið, einkum heiðum og útvegum.

Vegir eru greiðfærir bæði á Suðurlandi og Vesturlandi.

 Ofankoma er á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum og hálkublettir eða snjóþekja en vegir  eru auðir á láglendi.

 Aðalleiðir eru að heita má greiðfærar á Norðurlandi en hálka eða hálkublettir eru á fáeinum útvegum.

 Vegir eru einnig víðast hvar auðir á Austurlandi þótt hálkublettir eða jafnvel hálka sé á nokkrum útvegum.

Breiðdalsheiði er þó flughál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert