Umfjöllun með fyrirsögninni „Ofbeldisfyllsta íþrótt í heimi“ birtist í helgarblaði Fréttablaðsins. Í umfjölluninni er rakin saga blandaðra bardagaíþrótta (MMA) og UFC, stærstu mótaraðarinnar í íþróttinni. Í umfjölluninni er rætt við Gunnar Nelson, eina Íslendinginn sem keppt hefur í UFC.
Gunnar segir í samtali við mbl.is að umfjöllun Fréttablaðsins, þá sérstaklega fyrirsögnin, sé á algjörum villigötum. Enginn sé beittur ofbeldi í MMA.
„Þetta er alveg fáránleg fyrirsögn sem á ekkert heima þarna, sérstaklega á þessum tíma. Mér finnst þetta taktlaust og leiðinlegt, því það er ekkert ofbeldi í þessari íþrótt, sérstaklega þegar maður ber hana saman við aðrar íþróttir sem eru raunverulega ofbeldisfullar, eins og til dæmis nautaat, ef það er rétt að kalla það íþrótt,“ segir Gunnar Nelson.
„Í MMA eru þrautþjálfaðir menn að keppa eftir fyrirfram ákveðnum reglum og ströngu eftirliti fagaðila.“
Hann segir að allir sem stíga inn í átthyrninginn vita hvað kunni að bíða þeirra, en keppi samt af fúsum og frjálsum vilja í íþróttinni. Enginn sé því þvingaður til neins.
„Mín skilgreining á ofbeldi er sú að þú neyðir einhvern til einhvers, eða gerir eitthvað við hann sem hann vill ekki taka þátt í. Þarna séu hins vegar tveir þrautþjálfaðir menn, sem vita nákvæmlega hvað þeir eru að fara út í.“
Það sem við aðrar aðstæður væri því flokkað sem ofbeldi er það ekki í keppninni, því allir sem keppi hafi gefið upplýst samþykki fyrir því sem kunni að gerast.
„Þetta er bara eins og svo margt annað. Ef þú tekur af einhverjum bolta sem á hann og vill ekki að þú takir hann, þá er það ofbeldi. Ef þú gerir það á fótboltavellinum, þá er það ekki ofbeldi, það er fótbolti,“ segir Gunnar.
Í umfjölluninni er ennfremur dregið fram nafn sem íþróttin fékk á sig í árdögum, „mennskt hanaat“ (e. human cockfighting). „Það var á þeim tíma sem mönnum fannst þetta hrikalega ofbeldisfullt og of fáar reglur. Nú er búið að setja allskonar reglur til að vernda keppendurna. Þetta er bara gamall fordómastimpill á íþróttinni.“ Íþróttin hafi hins vegar breyst mjög mikið frá árinu 1993, og þó svo eðli hennar sé það sama, þá sé búningurinn allt annar.
Pétur Marinó Jónsson, ritstjóri vefritsins MMA fréttir, lýsir undrun sinni á umfjöllun Fréttablaðsins í pistli á vefnum og segir meðal annars:
„Ofbeldi og íþrótt passa að mínu mati ekki í sömu setningu. [...] Myndin sem fylgir fréttinni er ein blóðugastsa mynd sem ég hef séð í MMA og gefur upp mjög neikvæða mynd af íþróttinni.
Þegar stórir skurðir koma upp í MMA bardögum er mjög vel fylgst með þeim og dómarinn kallar oft til lækni eða hornamann til að stöðva blóðstreymið.
Að sjá svo mikið blóð í MMA bardaga eins og er á myndinni er sjaldgæft sem betur fer. Í heildina dregur þessi grein upp ranga ímynd af íþróttinni,“ skrifar Pétur Marinó.
„Meiðsla og slysatíðni í þessari íþrótt er engu meiri en í öðrum íþróttum, þó svo að menn fái marbletti, sprungna vör og glóðarauga, þá slasast menn ekki alvarlega,“ bætir Gunnar við. „Íþróttin er auðvitað harðgerð og lítur skuggalega út fyrir óreynt auga.“ Hann skellir uppúr þegar hann er spurður hvort hann líti á sig sem ofbeldismann. „Nei, ég lít engan veginn á mig sem ofbeldismann og hef aldrei gert. Engan veginn. Eins og ég segi, þetta á ekkert skylt með ofbeldi.“
Eftir að umfjöllunin birtist hafi fjölmargir iðkendur bardagaíþrótta, blandaðra og annarra, lýst undrun sinni á þeirri mynd sem dregin sé upp af íþróttinni og að greinilegt sé að skilgreining blaðsins á ofbeldi fari ekki saman við skilgreiningu iðkenda á því. Valdbeiting með samþykki, eins og gerist í UFC, eigi því ekkert skylt við til dæmis það ofbeldi sem misyndismenn beiti saklausa borgara.