Fresta sektum vegna orkuskipta

Atvinnuveganefnd ræddi lög um orkuskipti á fundi í morgun.
Atvinnuveganefnd ræddi lög um orkuskipti á fundi í morgun. Morgunblaðið/Kristinn

Atvinnuveganefnd samþykkti í morgun tillögu um að fresta sektum á hendur olíufélögum vegna nýrra laga um orkuskipti í samgöngum. Breytt gildistökuákvæði vegna sektargreiðslna kemur nú til kasta þingsins en samkvæmt því frestast sektargreiðslur frá 1. janúar næstkomandi til 1. október 2014.

Aðlögunartími olíufélaganna hefur því verið lengdur.

Lögin voru samþykkt í mars sl. og fela í sér að frá og með áramótum þarf hlutur íblöndunarefna af endurnýjanlegum uppruna í eldsneyti að vera 3,5%. Miðast hlutfallið við orkugildi. Tóku lögin gildi 10. apríl sl.

Markmið laganna er að „auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti“.

Var gildistökunni flýtt frá 1. janúar 2015 til 1. janúar 2014 við afgreiðsluna sl. vor og var um það þverpólitísk samstaða.

Lögin eru tilkomin vegna tilskipunar frá ESB og er ætlunin að hlutfallið verði komið í 10% árið 2020.

Dagsektir á hendur olíufélögunum vegna brota á hinum nýju kröfum um lágmarkshlut íblöndunarefna í bensín og dísiloliu nema 4 kr. á hverja MJ orkueiningu sem upp á vantar af endurnýjanlega hlutanum og taka þær nú ekki gildi fyrr en 1. október 2014, samþykki Alþingi hið breytta gildistökuákvæði.

Í fyrri útgáfu þessar fréttar sagði að dagsektir myndu nema 500.000 kr. Leiðréttist það hér með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert