Fyllti á símakort fyrir hálfa milljón

Farsími
Farsími mbl.is/Golli

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt 21 árs gamlan karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik. Maðurinn hagnýtti sér kerfisvillu í netbanka til að fylla á fyrirframgreidd símakort fyrir hálfa milljón króna án þess að bankareikningur hans væri skuldfærður.

Maðurinn var aðeins 17 ára þegar brotin voru framin en á tímabilinu 28. desember 2009 til og með 15. janúar 2010 misnotaði hann með sviksamlegum hætti aðgang sinn að netbanka Íslandsbanka, með því að hagnýta sér kerfisvillu sem var tilkomin vegna mistaka tölvuforritara við forritun í tölvukerfi bankans sem leiddi til þess að hægt var að fylla á fyrirframgreidd símakort án þess að viðkomandi bankareikningur væri skuldfærður.

Hann framkvæmdi í auðgunarskyni 100 áfyllingar á 59 mismunandi símakort, sem hann og aðrir voru notendur að, hjá nánar tilgreindum símafélögum fyrir samtals 496.000 króna, þrátt fyrir vitneskju um að bankareikningur hans væri ekki skuldfærður vegna áfyllinganna.

Háttsemin kom ekki í ljós fyrr en að Íslandsbanki var krafinn greiðslu vegna áfyllinganna af hálfu símafélaganna sem og bankinn greiddi með tilheyrandi tjóni.

Maðurinn játaði sök og samþykkti bótakröfuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert