Hópur á vegum ríkisstjórnarinnar fundaði í gær til þess að fara yfir stöðu mála í Kolgrafafirði. Ræddur var möguleiki á að rjúfa þverun fjarðarins og opna hann frekar, í því skyni að auka sjóflæði og bæta súrefnisstöðu.
Ljóst er að slík framkvæmd mun taka nokkrar vikur og óvíst hvort hún hefði tilætluð áhrif, segir í frétt um málið á vef umhverfisráðuneytisins.
Þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða, meðal annars með því að reyna að fæla síldina af hættuslóðunum. Auk þess er búið að bæta vöktunina á svæðinu. Nettengdri bauju hefur verið komið fyrir í firðinum og gefur hún stöðugar upplýsingar um súrefnismettun og getur auðveldað mönnum að sjá hvort hættuástand er í uppsiglingu.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segist Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, vona að hægt verði að gera tilraun með að spila háhyrningshljóð neðansjávar innan brúar í Kolgrafafirði í dag.