Sæmileg sátt ríki um skipulagið

Frá fundi borgarstjórnar í dag.
Frá fundi borgarstjórnar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Gríðarlega mikilvægt er að sæmileg sátt ríki um aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Það er hins vegar ekki raunin. Þetta sagði Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfultrúi Sjálfstæðisflokksins, á fundi í borgarstjórn í dag þar sem önnur umræða um nýtt aðalskipulag borgarinnar fór fram. Það ætti ekki síst við úti í samfélaginu og vísaði hann þar til undirskriftasafnana og annarra mótmæla gegn einstökum hlutum skipulagsins. Meðal annars vegna vilja meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins að Reykjavíkurflugvöllur færi úr Vatnsmýrinni. Mótmælin gegn aðalskipulaginu ættu sér ekki fordæmi.

Júlíus sagði aðalskipulagið vera meira í ætt við fræðirit enda væri það full hlaðið af upplýsingum. Sagði hann ástæðu til að þakka því mörgu einstaklingum sem komið hefðu að gerð þess og hefðu ávallt verið reiðubúnir að svara spurningum vegna þess og útskýra atriði tengd því. Hins vegar hefð aðalskipulagið tekið litlum breytingum þrátt fyrir mótmæli og gagnrýni á það. Ekki síst vegna flugvallarins. Sagði hann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, hafa skorið meirihlutann úr snörunni í þeim efnum með samkomulaginu sem gert var í haust um að flugvöllurinn yrði í Vatnsmýrinni í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sjálfstæðismenn leggjast gegn aðalskipulaginu

Júlíus sagði hann og tvo aðra borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartan Magnússon og Mörtu Guðjónsdóttur, leggjast gegn aðalskipulaginu einkum vegna þess að uppbygging á skipulagstímanum væri takmörkuð við þéttingarreiti í eldri hluta borgarinnar. Slík ofurtrú á einni leið til uppbyggingar stríddi gegn eðlilegri borgarþróun og leiða til þess að fólk leiti annað þar sem framboð sé fjölbreyttara. Þá byggði samgöngukaflinn á óraunhæfum forsendum. Umferðaröryggi væri best tryggt með skynsamlegum samgöngumannvirkjum en stefna aðalskipulagsins væri hins vegar að draga úr vegaframkvæmdum og þrengja að umferð. 

Ennfremur væri gert ráð fyrir að atvinnustarfsemi eins og iðnaður viki fyrir íbúðabyggð á stórum svæðum án skýrrar framtíðarstefnu um framtíðarstaðsetningu fyrir slíka starfsemi. Sömuleiðis ætti flugvöllurinn að fara úr Vatnsmýrinni á skipulagstímanum þrátt fyrir mikil mótmæli gegn því. Júlíus lagði fram sjö tillögur sjálfstæðismanna að breytingum á aðalskipulaginu sem samþykkt var að taka á dagskrá.

Flugvöllurinn verði sýndur í aðalskipulaginu

Þar kemur fram að Reykjavíkurflugvöllur verði sýndur í aðalskipulaginu þar sem hann er í dag og gert ráð fyrir að landsvæðið verði skipulagt fyrir flugvallastarfsemi. Áform um íbúðarbyggð í Ártúnsholti, við Rafstöðvarveg verði endurmetin og að íbúðabyggð sem rísa á við Skerjafjörð verði lögð til hliðar og þörf fyrir uppbyggingu endurmetin. Fjölgað verði íbúðum í Úlfarsárdal austan Úlfarsár og við það miðað að hverfið verði sjálfbært. Ennfremur að hætt verði við húsalengju norðan Suðurlandsbrautar í Laugardal. Laugardalurinn njóti áfram sérstakrar verndar líkt og hingað til.

Þá er lagt til að samgöngumannvirkjum verði ekki fækkað í aðalskipulaginu og þeim mislægu gatnamótum sem eru í gildandi skipulagi verði haldið inni. Sömuleiðis að unnar verði umferðarlausnir á gatnamótum Grensásvegar og Miklubrautar, Háaleitisbrautar og Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Að endingu er lagt til að ekki verði sýnd brú yfir Fossvoginn á uppdráttum aðalskipulagsins. Kostnaðaráætlun sýnir að brúin muni kosta á annan milljarð króna. Brúin hefði takmarkaðan almennan tilgang en myndi hins vegar hafa mjög neikvæð áhrif á siglingastarfsemi sem sé mikil í Fossvoginum og hefur farið vaxandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert