Vara við skrýtnum SMS sendingum

AFP

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir á facebooksíðu sinni að nokkuð hafi borið á að fólk hafi fengið dularfull SMS með skilaboðunum „call me back pls“. Lögreglan hvetur fólk eindregið til að hringja ekki í númerið eða senda SMS til baka.

Færsla lögreglunnar:

„Við höfum fengið ábendingar frá fólki að því berist SMS skilaboð þar sem segir ,,call me back pls'' Allar líkur eru á að þarna sé um að ræða eitthvert svindl og svínarí. Símanúmerið byrjar á +0088. Sennilegt er ef fólk hringir til baka eða svarar, að það sogist inn í einhver leiðindi og auki líkur á fjártjóni.“

Síminn birtir í kjölfarið eftirfarandi færslu á facebooksíðu lögreglunnar: 

Eins og vinir okkar hjá Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu benda á eru einhverjir óprúttnir aðilar að senda smáskilaboð (SMS) í farsíma með skilaboðunum Please call me back eða Call me back urgently. Um er að ræða svindl og engin ástæða er til að hringja til baka eða að hafa áhyggjur um að vinur eða ættingi sé í vanda staddur.

Leiðið því skilaboðin hjá ykkur og látið eins og ekkert sé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert