25,5 milljarða halli í stað 3,7 milljarða

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram fjáraukalög í gærkvöldi.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram fjáraukalög í gærkvöldi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Samkvæmt fjáraukalögum sem lögð voru fram á Alþingi í gærkvöldi verður hallinn á rekstri ríkissjóðs á þessu ári 25,5 milljarðar, en ekki 3,7 milljarðar eins og gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Í fjárlögum ársins 2013 var áætlað að 3,7 milljarða halli yrði á rekstri ríkissjóðs á árinu á rekstrargrunni en að frumjöfnuður yrði jákvæður um 60,2 milljarða. Sú áætlun hefur nú verið endurskoðuð með hliðsjón af þjóðhagsspá sem Hagstofan birti 28. júní sl. og í ljósi nýrra upplýsinga um þróun tekjustofna og útgjalda helstu málaflokka frá þeim tíma.

Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpinu er nú gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 555,6 milljarðar (579,4 milljarðar í fjárlögum) og heildargjöld 581,1 milljarður (583 milljarðar í fjárlögum). Þannig verði heildarjöfnuður ársins neikvæður um 25,5 milljarða og þar með 21,8 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í gildandi fjárlögum. Þar gætir þó áhrifa af tæplega 7 milljarða bata í vaxtajöfnuði þannig að frumjöfnuður að því frátöldu verður 28,7 milljarða verri en samkvæmt fjárlögum.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður gæti orðið jákvæður sem nemur um 31,6 milljarði eða sem svarar til um 2% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt þessari áætlun eru því horfur á að afgangur á frumjöfnuði verði nærri helmingi lægri á rekstrargrunni á þessu ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Það felur þó í sér töluverðan afkomubata milli ára samanborið við ríkisreikning fyrir árið 2012 en þá var afgangur á frumjöfnuði um 18 milljarðar.

Breytingarnar á afkomu ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga stafa aðallega af því að tekjur ríkissjóðs eru umtalsvert lægri en áætlað var í fjárlögum vegna minni hagvaxtar en vænst var.

Fjáraukalagafrumvarp

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert