5,0% atvinnuleysi í október

Atvinnuleysi var 5,0% í október samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Í mánuðinum voru að jafnaði 186.300 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 177.000 starfandi og 9.300 án vinnu og í atvinnuleit.

Atvinnuþátttaka mældist 81,5%, hlutfall starfandi 77,5% og atvinnuleysi var 5%. Samanburður október 2012 og 2013 sýnir að atvinnuþátttaka hefur aukist nokkuð á milli ára eða um 2,6 prósentustig, hlutfall starfandi jókst um 2,1 prósentustig og hlutfall atvinnulausra jókst um 0,6 prósentustig.

Árstíðaleiðréttur fjöldi fólks á vinnumarkaði í október 2013 var 189.200 sem jafngildir 83% atvinnuþátttöku sem er sami fjöldi og september en hlutfallið þá var litlu lægra eða 82,6%. Fjöldi atvinnulausra var 10.800 og minnkaði um 900 manns á milli september og október 2013. Hlutfall atvinnulausra var 5,7% í október en var 6,2% í september. Fjöldi starfandi í október 2013 var 178.400 eða 78,2% en var 177.600 eða 77,5% í september 2013. Samkvæmt árstíðaleiðréttingu minnkaði atvinnuleysi um 0,5 prósentustig á milli mánaða og hlutfall starfandi jókst um 0,7 prósentustig. 

Leitni árstíðaleiðréttingar á vinnuaflstölum sýnir að á síðustu sex mánuðum hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 2,1% og atvinnuþátttaka því aukist um 0,8 prósentustig. Þrátt fyrir að sjálf mælingin og árstíðaleiðréttingin sýni nokkra hreyfingu á atvinnuleysinu þá sýnir leitnin litlar breytingar hvort sem litið er til fjölda eða hlutfalls. Starfandi fólki fjölgaði um 3.800 á þessu tímabili eða um 2,2% og hlutfall þess af mannfjölda jókst um 0,8 prósentustig. Þegar litið er á þróun leitni síðustu 12 mánaða hefur fólki á vinnumarkaði fjölgað um 4,2%, fjöldi starfandi aukist um 4,2%, fjöldi utan vinnumarkaðar fækkað um 12% og fjöldi atvinnulausra stendur í stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka