Frá árinu 1990 hefur íbúum Íslands fjölgað um næstum 26 prósent, það er mesta aukning á Norðurlöndum samkvæmt nýjum tölum úr Norrænu hagtöluárbókinni 2013, sem kom út í dag og Hagstofan segir frá.
Íslendingum fjölgaði frá árinu 1990 úr 254.000 í 322.000 sem er mun meiri aukning en annars staðar á Norðurlöndum. Íbúum Álandseyja og Noregs fjölgaði einnig nokkuð, um 17 og 18 prósent.
Þessi þrjú lönd eru einnig fremst í flokki þegar litið er til nýjustu spár um fólksfjölgun. Þar eru Álandseyjar og Noregur þó framar Íslandi. Til ársins 2040 er reiknað með að íbúum Noregs fjölgi um 32 prósent og Álandseyja um 29 prósent.
Talið er að Íslendingum fjölgi um u.þ.b. 26 prósent á sama tímabili.