Eldur kom upp í flutningabíl á Þröskuldum, milli Steingrímsfjarðar og Reykhólasveitar, síðdegis í dag. Vegfarandi sem átti leið hjá segir að bílstjórinn hafi reynt að slökkva eldinn en á endanum þurft að sætta sig við að horfa á bílinn brenna.
„Ég kom þarna að og sá reyk og loga. Ég þurfti að mjaka mér til að komast framhjá logandi bílnum og bílstjórinn stóð þarna fyrir utan og sagði bara að bíllinn hans væri að brenna,“ segir Oddur Jónsson, sem ók fram á eldsvoðann.
Svo virðist sem logandi olía hafi spýst út úr vélarhúsinu. Að sögn Odds var bílstjóri flutningabílsins með tvö handslökkvitæki í bílnum sem hann beitti gegn eldinum. „Hann losaði úr þeim báðum og hélt að hann væri að ná þessu aftur en svo gaus eldurinn bara upp aftur.“
Þegar Oddur ók brott var bílstjórinn að bíða eftir slökkviliði og lögreglu, en eldurinn fór vaxandi. Tvíbreiður vegur er um Þröskulda en flutningabíllinn lokaði alveg annarri akreininni og eldurinn teygði sig í átt að hinni. Oddur segir að hann bíll sem kom aðvífandi hafi séð sér þann kost vænstan að bíða en reyna ekki að komast framhjá eldinum.
Ekki hefur náðst í lögreglu eða slökkvilið á Hólmavík vegna málsins.