Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag breytingar á deiliskipulagi, annars vegar fyrir gömlu höfnina og Vesturbugt með áherslu á vistvæna byggð, og hins vegar fyrir Nýlendureitinn svokallaða þar sem reiturinn er smækkaður og byggingarreitur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar er þrengdur.
Mbl.is fjallaði um breytingarnar fyrr í þessum mánuði þegar þær voru samþykktar í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar.
Breytingin á gömlu höfninni og Vesturbugt með áherslu á vistvæna byggð var samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Í frétt frá borginni segir að nýja byggðin muni einkennast af vönduðum almenningsrýmum og atvinnuhúsnæði á jarðhæð sem mun skapa grundvöll fyrir iðandi mannlíf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði, þeir Júlíus Vífill Ingvarsson og Kjartan Magnússon, sátu hjá við afgreiðslu málsins en létu bóka athugasemdir. Telja þeir að með nýju deiliskipulagi sé verið að loka á tengsl gamla vesturbæjarins við höfnina. Of lítil áhersla sé á opin svæði og gert sé ráð fyrir of fáum bílastæðum við hverja íbúð á svæðinu. Enn fremur benda þeir á að Graeme Massie arkítektar, sem áttu vinningstillöguna í opinni hugmyndasamkeppni um rammaskipulag gömlu hafnarinnar, hafi sent frá sér tilkynningu um að stóra þætti í vinningstillögunni sé ekki að finna í deiliskipulaginu.
Tillagan um breytingar á deiluskipulagi Nýlendureitsins var einnig samþykkt með fimm atkvæðum Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Helsta breyting deiliskipulags Nýlendureits felst í smækkun reitsins. Ákveðið hefur verið að falla frá því að færa Mýrargötu norður fyrir Slippfélagshúsið, Mýrargötu 2-4. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu einnig hjá við afgreiðslu þessa máls en lögðu einnig fram tillögu um að skoða hvort hægt sé að koma rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni fyrir á rúmbetri stað. Þeirri tillögu var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. Í bókun þeirra koma fram þau sjónarmið að þeir telji að verið sé að reyna að koma of stórri byggingu fyrir á of þröngri lóð. Aðeins sé gert ráð fyrir þremur bílastæðum, sem muni hvergi nærri duga fyrir starfsemi kirkjunnar.