Héraðsdómur féllst í dag á kröfu Landsbankans um að Hannes Smárason, fyrrverandi forstjóri FL Group, þurfi að greiða bankanum 1.964.913.069 kr. vegna sjálfskuldarábyrgðar sem Hannes gekkst undir þann 4. desember árið 2007.
Sjálfskuldarábyrgðin var gefin út fyrir lánveitingum til handa tveimur einkahlutafélögum, annars vegar Fjárfestingafélaginu Primusi ehf., (nú FI fjarfestingar ehf.), og hins vegar Eignarhaldsfélaginu Oddaflugi ehf., (nú EO eignarhaldsfélag ehf.).
Hannes hafði uppi gagnsök í málinu og krafðist ógildingar sjálfskuldarábyrgðarinnar ellegar að henni yrði vikið til hliðar með dómi. Hann bar meðal annars fyrir sig að Landsbankinn hefði haft allt frumkvæði að gerð sjálfskuldarábyrgðarinnar og að hann hefði sjálfur ekki verið í neinni stöðu til að átta sig á því hvernig komið var fyrir íslensku bönkunum í desemberbyrjun árið 2007.
Ekki var fallist á röksemdir Hannesar, en Landsbankinn var dæmdur sýkn af gagnsökum hans.