Bílastæðasjóður hyggst lengja gjaldskyldutíma á gjaldsvæði 1, en á því svæði eru meðal annars Laugavegur, Bankastræti, hluti af Skólavörðustíg og Kvosin, til klukkan 20 á virkum dögum. Gjaldskyldutíminn hefur hingað til verið frá klukkan 10 til klukkan 18 virka daga.
Rætt var um málið á fundi Hverfisráðs Miðborgar í vikunni, en beiðni hefur verið send ráðinu frá Bílastæðasjóði um umsögn vegna fyrirhugaðrar lengingar gjaldskyldutímans.
Hverfisráðið leggst ekki gegn tillögunni, en fer fram á að um tímabundna ráðstöfun verði að ræða. Að ári falli ráðstöfunin niður nema sýnt verði fram á ótvíræða kosti þessa fyrirkomulags fyrir bæði íbúa og rekstraraðila í miðborginni.