Gylfi: Djúphugsuð áróðursherferð

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Styrmir Kári

„Mikið hefur verið fjallað um einkennilega auglýsingaherferð SA að undanförnu þar sem launahækkanir eru sagðar upphaf og endir alls þess sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi án þess að nefnd sé til sögunnar afburða slæm og mótsagnakennd hagstjórn og sveiflur í gengi krónunnar,“ skrifar Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ í fréttabréf samtakanna.

Hann segir að Samtök atvinnulífsins skauti algerlega framhjá þeirri „augljósu staðreynd“ að hér á landi hefur veikur gjaldmiðill verið nýttur til að leiðrétta mistök í hagstjórn með því að láta hann falla reglulega með tilheyrandi tjóni fyrir launafólk í landinu. Það er eins og SA hafi gleymt hruni krónunnar fyrir 5 árum.

„En látum það vera að SA skuli skuli sleppa jafn stórri breytu í reikningsdæmi sínu og gjaldmiðlinum. Það segir sitthvað um hversu djúphugsuð áróðurherferð þeirra er,“ skrifar Gylfi. Það skipti hins vegar máli í þessari umræðu að halda því til haga, að ef fyrirtækin í landinu hefðu fylgt markmiðum þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið sl. áratug hefði þróunin vafalaust orðið önnur.

„Almennar launahækkanir í kjarasamningum hafa nefnilega verið mjög sambærilegar þeirri launaþróun sem verið hefur á Norðurlöndunum. Hækkun launavísitölu umfram þessar almennu hækkanir má að mestu rekja til launaskriðs sem atvinnurekendur sjálfir bera mikla ábyrgð á. Það gefur augaleið að tilvist launaskriðsins hefur haft áhrif á taxtakerfi kjarasamninga því sjaldnast er eitthvert jafnræði eða réttlæti því tengdu. Launaskrið er handahófskennt og tilhneigingin er sú að hún falli þeim helst í skaut sem eru í efri þrepum launastigans. Ef atvinnurekendur beygðu sig undir aga þeirra kjarasamninga sem þeir gera þá er öruggt að verðbólga af völdum launahækkana, sem þeir básúna svo mjög, yrði sáralítil. Gott dæmi um þetta er að almenn launahækkun á þessu ári var 3,25% í febrúar en launavísitalan hefur hækkað um 6% sl. 12 mánuði.“

Gylfi segir að aðdraganda þeirra kjaraviðræðna sem nú standa yfir hafi mikið verið rætt um mikilvægi þess að að fyrirbyggja áframhaldandi háa verðbólgu. „Í því samhengi er ekki síður mikilvægt að fyrirtæki og opinberir aðilar sýni launafólki að þau séu sjálf tilbúin til að axla ábyrgð á slíkri leið með því að halda aftur af verðhækkunum á næstu mánuðum. Þannig má tryggja stöðugleika og kaupmáttaraukningu á lægra stigi launabreytinga sem gagnast öllum.“

Gylfi bendir á að Reykjavíkurborg hafi gengið á undan með góðu fordæmi eftir að verkalýðsfélögin í höfuðborginni mótmæltu boðuðum breytingum og afturkallað boðaðar gjaldskrárhækkanir. Nú hafa fleiri sveitarfélög fylgt í kjölfarið m.a. eftir hvatningar frá aðildarfélögum ASÍ.

„Það vakti furðu að fjármálaráðherra skyldi neita því að endurskoða boðaðar hækkanir í fjárlögum, sem sjálfur hafði skorað á Reykjavíkurborg, en sú þögn sem ríkir um áform forsvarsmanna fyrirtækjanna í landinu er farin að verða mjög hávaðasöm. Það er mín skoðun að mjög mikilvægt sé að fá þessa aðila að borðinu með beinum hætti. Því áformar ASÍ að skora á fyrirtæki og opinbera aðila að sýna þessu verkefni samstöðu og undirrita yfirlýsingu um þátttöku sína í átaki um verðstöðugleika. Yfirlýsingarnar yrðu svo birtar inn á síðunni www.vertuaverdi.is. Þannig gætu þau með áberandi hætti sýnt hverjir axla ábyrgð og hverjir ekki. Það er ljóst að atvinnurekendur geta gert ýmislegt til að halda aftur af verðbólgunni í landinu. Það að kenna launafólki, sem fær hækkanir skv. kjarasamningum, um verðbólguna er ekki innlegg sem vænlegt er til árangurs.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert