„Hvaðan koma peningarnir?“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, gerði að umtalsefni á Alþingi í dag að á sama tíma og þingmenn væru að ræða um fjáraukalög og velta fyrir sér hverri krónu í rekstri ríkisins kæmu fregnir um að ríkisstjórnin ætlaði að fara út í aðgerðir í skuldamálum heimilanna upp á 130 milljarða króna. Í þeim efnum virtust vera til nægir peningar. Beindi hann af þeim sökum fyrirspurn til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra: „Ég spyr bara eins og barn: Hvaðan koma peningarnir?“

Forsætisráðherra sagði ekki hægt að bera saman venjubundin útgjöld ríkisins og þess svigrúms sem allir væru sammála um að þyrfti að skapast til þess að afnema gjaldeyrishöftin. Staðreyndin væri sú að of miklir peningar væru í umferð og á sama tíma og lofti væri hleypt úr eignabólu sem skapast hefði á liðnum árum þyrfti einnig að hleypa lofti úr skuldabólunni sem myndast hefði að sama skapi.

Guðmundur tók aftur til máls og sagðist vera að ljúga ef hann segðist hafa skilið svar Sigmundar Davíðs. Spurði hann með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlaði að ná í þá peninga sem þyrfti til þess að skapa umrætt svigrúm. Ef fara ætti í skuldaleiðréttingar í gegnum skattkerfið þyrfti að ræða það á Alþingi. Forsætisráðherra svaraði því til að Guðmundur þyrfti ekki að velkjast lengi í vafa um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna enda væri stutt í að þær yrðu kynntar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert