„Hvaðan koma peningarnir?“

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmund­ur Stein­gríms­son, formaður Bjartr­ar framtíðar, gerði að um­tals­efni á Alþingi í dag að á sama tíma og þing­menn væru að ræða um fjár­auka­lög og velta fyr­ir sér hverri krónu í rekstri rík­is­ins kæmu fregn­ir um að rík­is­stjórn­in ætlaði að fara út í aðgerðir í skulda­mál­um heim­il­anna upp á 130 millj­arða króna. Í þeim efn­um virt­ust vera til næg­ir pen­ing­ar. Beindi hann af þeim sök­um fyr­ir­spurn til Sig­mund­ar Davíðs Gunn­laugs­son­ar, for­sæt­is­ráðherra: „Ég spyr bara eins og barn: Hvaðan koma pen­ing­arn­ir?“

For­sæt­is­ráðherra sagði ekki hægt að bera sam­an venju­bund­in út­gjöld rík­is­ins og þess svig­rúms sem all­ir væru sam­mála um að þyrfti að skap­ast til þess að af­nema gjald­eyr­is­höft­in. Staðreynd­in væri sú að of mikl­ir pen­ing­ar væru í um­ferð og á sama tíma og lofti væri hleypt úr eigna­bólu sem skap­ast hefði á liðnum árum þyrfti einnig að hleypa lofti úr skulda­ból­unni sem mynd­ast hefði að sama skapi.

Guðmund­ur tók aft­ur til máls og sagðist vera að ljúga ef hann segðist hafa skilið svar Sig­mund­ar Davíðs. Spurði hann með hvaða hætti rík­is­stjórn­in ætlaði að ná í þá pen­inga sem þyrfti til þess að skapa um­rætt svig­rúm. Ef fara ætti í skulda­leiðrétt­ing­ar í gegn­um skatt­kerfið þyrfti að ræða það á Alþingi. For­sæt­is­ráðherra svaraði því til að Guðmund­ur þyrfti ekki að velkj­ast lengi í vafa um aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar í skulda­mál­um heim­il­anna enda væri stutt í að þær yrðu kynnt­ar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is­ráðherra. mbl.is/​Golli / Kjart­an Þor­björns­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert