Öll stóru símafyrirtækin, Síminn, Vodafone og Nova, hafa samið við Apple um sölu á nýju gerðunum af iPhone, iPhone 5s og iPhone 5c, frá og með 13. desember. Segja símafyrirtækin að þetta komi til með að lækka verð á iPhone símum un tugi þúsunda til neytenda.
Að sögn Hrannars Péturssonar, framkvæmdastjóra hjá Vodafone, gefa innkaup án milliliða færi á að lækka verð á öllum iPhone-símum verulega. Þannig mun nýjasta tækið lækka um meira en 50 þúsund krónur.
Íslendingar geti framvegis fengið tækin á sama tíma og aðrar þjóðir en hingað til hafa íslenskir söluaðilar þurft að kaupa iPhone-símtækin eftir krókaleiðum af milliliðum, með tilheyrandi töfum og kostnaði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins mun verð á símunum lækka um tugi prósenta með því að Síminn geti flutt þá inn milliliðalaust.
Á vef Símans er þetta staðfest og þar kemur fram að verðið á iPhone 5s lækkar um fimmtíu þúsund krónur. Það verður 109.900 í stað 159.900 áður. Verð iPhone 5c lækkar um 26.100 krónur, var 119.000 og verður 92.900.
Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að einnig hafi verið samið við Nova um slíkan samning og því ljóst að Apple hefur gert samning við öll stóru símafyrirtækin á Íslandi um sölu á iPhone milliliðalaust.