Birting kann að skaða hagsmuni ríkisins

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Telja verður að birting á þeim drögum að samningsafstöðu sem hér um ræðir kunni að skaða hagsmuni Íslands komi til þess að aðildarviðræður hefjist á nýjan leik,“ segir í svari Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn frá Vilhjálmi Bjarnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, varðandi viðræður um inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Vilhjálmur óskaði eftir upplýsingum um það hvort vinna við samningsmarkmið Íslands í sjávarútvegsmálum, landbúnaðarmálum, byggðamálum og gjaldmiðilsmálum hefði verið hafin og hversu langt sú vinna væri komin. Ennfremur hver markmiðin væru og hvort þau hefðu verið kynnt Evrópusambandinu. Þá fór þingmaðurinn fram á að síðustu drög samningsmarkmiða í þeim málaflokkum þar sem endanleg markmið lægju ekki fyrir yrðu birt eins og þau hafi verið kynnt í aðalsamninganefnd.

Utanríkisráðuneytið vísar í ákvæði upplýsingalaga því til stuðnings að birta ekki síðustu drög samningsmarkmiða í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þau hafi hins vegar verið send til utanríkismálanefndar Alþingis bundin trúnaði í samræmi við þingskaparlög. Að öðru leyti er vísað í álit meirihluta utanríkismálanefndar þingsins sem lagt var til grundvallar umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið fyrir rúmum fjórum árum.

Hvað samningsmarkmið í byggðamálum og gjaldmiðilsmálum kemur fram í svarinu að þau hafi þegar verið lögð fram og kynnt á árinu 2012 og umræddir karlar opnaðir til samninga á ríkjaráðstefnu með Evrópusambandinu 18. desember það ár.

Svar utanríkisráðherra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert