Vetur konungur heilsar höfuðborgarbúum á nýjan leik eftir helgi og staldrar við alla næstu viku. Aðfaranótt mánudags gengur á með éljum eða snjókomu sem verður viðvarandi þangað til á miðvikudag. Herðir þá frost og verður í kringum tíu stig fimmtudag og föstudag.
Milt verður á höfuðborgarsvæðinu um helgina, hiti 4-8 stig en búast má við rigningu báða daganna. Þá má reikna með strekkingsvindi, 9-12 metrum á sekúndu.
Spám ber hins vegar ekki alveg saman um hversu mikil snjókoma verður í höfuðborginni og nágranna sveitarfélögum á mánudag og þriðjudag en að það verði alla vega sæmilega þéttur éljagangur auk þess sem strekkingsvindur verði báða dagana, tíu til fimmtán metrar á sekúndu. Ákveðin suðvestan- og vestanátt með éljagangi, eins og Veðurstofa Íslands orðar það.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni er þó ólíklegt að færð spillist, úrkoman sé ekki svo mikil auk þess sem allir eigi að vera komnir á vetrardekk. Þá bendir Veðurstofan á að spáin geti að sjálfsögðu breyst um helgina.