Þó að sú skuldalækkun sem forystumenn ríkisstjórnarinnar kynntu í dag sé hugsuð til fjögurra ára lækkar greiðslubyrði lánanna strax á næsta ári þegar aðgerðin á að koma til framkvæmda.
Óhætt er að segja að þjóðin hafi beðið með óþreyju eftir tillögum í skuldamálum heimilanna, en núverandi stjórnarflokkar lögðu höfuðáherslu á skuldamálin í kosningunum sem fram fóru í vor. Nú liggja tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir og búið er að kynna þær fyrir þingflokkum stjórnarinnar.
Næsta skref er að semja frumvörp og leggja þau fyrir þingið. Þau frumvörp koma væntanlega fram í byrjun næsta árs, en forystumenn ríkisstjórnarinnar sögðu á blaðamannafundi í dag að þeir teldu að það ætti að vera hægt að framkvæma skuldaniðurfærsluna um mitt ár 2014.
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður Bjartrar framtíðar, spurði á Alþingi í vikunni hvaðan peningarnir ættu að koma sem eiga að fara í að fjármagna skuldalækkunina. Svarið fékkst í dag. Þeir eiga að koma frá bönkunum og ekki síst föllnu bönkunum sem nú eru í slitameðferð. Þeim er ætlað að greiða samtals 80 milljarða í þetta verkefni á fjórum árum.
En fyrst fjármagnið á að koma frá bönkunum á fjórum árum, skilar það sér þá til heimilanna á næstu fjórum árum? Svarið er að höfuðstólsleiðréttingin gerist í fjórum jöfnum skrefum á næstu fjórum árum, en áhrifin á lántakann eru þau að lækkun á greiðslubyrði kemur fram öll í einu strax og aðgerðin kemur til framkvæmda á árinu 2014.
Höfuðstólsleiðréttingin fer þannig fram að upphaflega láninu er skipt í tvö lán, frumlán og leiðréttingarlán. Lántakinn heldur áfram að greiða af frumláninu en greiðir ekki af leiðréttingarláninu. Ábyrgð lántakans á leiðréttingarláninu lækkar um fjórðung árlega uns leiðréttingarlánið hverfur alveg að fjórum árum liðnum.
Þær aðgerðir sem forystumenn ríkisstjórnarinnar kynntu í dag eru tvíþættar, annars vegar bein skuldalækkun, sem fjármögnuð er með bankaskatti og hins vegar lækkun höfuðstóls með séreignasparnaði. Inngreiðsla séreignasparnaðar er áætlað að lækki höfuðstól lánanna um samtals 70 milljarða.
Einhver kynni að spyrja hvort þessi aðgerð sé ekki marklaus því margir séu búnir að taka út séreignasparnaðinn sinn. Þessi aðgerð snýst hins vegar ekki upp þann sparnað sem fólk er búið að safna heldur iðgjaldið sem greitt er í hverjum mánuði. Fram til ársins 2012 gátu launþegar greitt 4% iðgjald í séreignarsparnað skattfrjálst og vinnuveitandi greiddi 2% á móti. Fyrri ríkisstjórn breytti lögunum í árslok 2011 á þann veg að skattleysið náði einungis til 2% framlags launþega. Breytingin var tímabundin í þrjú ár og átti að renna út í lok árs 2014.
Miðað við tillögurnar sem kynntar voru í dag verður skattfrelsi lífeyrisiðgjalds í séreignarsparnað aukið á ný í 4% hjá launþegum og 2% vegna iðgjalds sem vinnuveitandi greiðir. Skilyrði er að þetta framlag renni til greiðslu inn á fasteignalán og lækki þannig höfuðstól lánsins. Skattleysi takmarkast við 500 þúsund kr. á ári. Úrræðið gildir í þrjú ár.
Skuldir heimilanna eru mismiklar. Þeir sem gagnrýnt hafa skuldalækkunaraðgerðir hafa bent á að aðgerðirnar gagnist best þeim sem skulda mikið. Það er vissulega rétt að þeir sem hafa farið varlega og ekki tekið stór lán fá minna en þeir sem eru með miklar skuldir. Hins vegar er ekki hægt að halda því fram að þeir sem skulda mjög mikið fari betur úr þessum aðgerðum en þeir sem eru með meðalskuldir. Ástæðan er sú að enginn getur fengið meiri skuldaniðurfellingu en 4 milljónir. Sá sem skuldar 25 milljónir fær að hámarki 4 milljónir niðurfelldar, en það er 16% lækkun. Sá sem skuldar 50 milljónir fær 4 milljónir niðurfelldar, en það er 8% lækkun á höfuðstól lánanna.
Allir sem voru með verðtryggt lán í árslok 2010 eiga rétt á skuldaniðurfærslu. Ekki skiptir máli hvort lánið var tekið hjá Íbúðalánasjóði, lífeyrissjóði eða banka, að því er fram kemur í þeim gögnum sem kynnt voru í dag.
Þegar menn velta fyrir sér hversu skuldalækkunin er mikil skiptir máli hvað skuldirnar eru miklar og eins getur skipt máli hvenær lánið var tekið. Eignastaða heimilanna skiptir hins vegar ekki máli. Skuldir lækka óháð eignum heimilanna. Verðtryggð húsnæðislán verða færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007 til ágúst 2010. Þetta samsvarar um 13% leiðréttingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Í tillögum ríkisstjórnarinnar er reynt að svara spurningum eins og hvaða áhrif það hefur ef heimilin eru með mörg lán, hvað gerist ef búið er að selja íbúðina, ef hjón hafa skilið, ef hjón hafa flutt til útlanda, ef lántaki hefur orðið gjaldþrota, búið er að endurfjármagna lánin o.s. frv.
Lagt er til að þeir sem eru á leigumarkaði geti nýtt sér skattleysi séreignarsparnaðar við inngreiðslu á sérstaka húsnæðissparnaðarreikninga. Leigjendur eru þannig hluti af leiðréttingunni. Nánari útfærslu gagnvart leigjendum er að vænta þegar nefnd um framtíðarskipan húsnæðismála skilar niðurstöðum sínum í janúar.