100 daga hringferð Morgunblaðsins lýkur í dag, á fullveldisdaginn, með því að Haraldur Johannessen ritstjóri blaðsins, ræðir við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra í beinni útsendingu á mbl.is fyrir framan áhorfendur í sal í Hörpu klukkan 16.
Til að fagna 100 ára útgáfu Morgunblaðsins voru blaðamenn og ljósmyndarar Morgunblaðsins og mbl.is sendir í 100 daga ferð um sveitir og bæi landsins. Markmiðið var að taka púlsinn á lífinu í landinu og gera ítarlega könnun á því sem er Íslendingum efst í huga.
Umræður Haraldar, Sigmundar og Bjarna munu byggjast á því sem komið hefur fram í hringborðsumræðum hringferðarinnar og niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal 300 forystumanna úr atvinnulífinu og sveitarstjórnum um land allt sem birtist í Morgunblaðinu á morgun.
Landsmönnum gefst einnig tækifæri til að hafa áhrif á umræðuna með því að senda inn spurningar, bæði áður en útsendingin hefst og einnig á meðal hún stendur yfir.
Ljóst er að margar spurningar brenna á landsmönnum og er hverjum og einum frjálst að senda inn spurningu vegna þáttarins. Eflaust munu tillögur sérfræðingahóps um aðgerðir í þágu skuldugra heimila, sem kynntar voru í gær, vekja upp einhverjar spurningar hjá landsmönnum.
Hægt er að senda spurningar á netfangið hringlok@mbl.is, á facebook-síðu mbl.is og í gegnum twitter með því að nota #hringlok
Á leið Morgunblaðsins um landið hefur verið efnt til hringborðsumræðna um landsins gagn og nauðsynjar og könnun á stöðu og horfum um allt land. Ætlunin var að draga fram stöðu og horfur, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli. Í tengslum við hringborðsumræðuna efndi Morgunblaðið til óformlegrar skoðanakönnunar um stöðu byggða og atvinnulífs meðal um 300 forystumanna úr atvinnulífinu og sveitarstjórnum um allt land.